Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 10:50:26 (4986)

1997-04-04 10:50:26# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:50]

Lúðvík Bergvinsson:

Viðulegi forseti. Það sem mér þótti vera hvað helst áhugavert í ræðu hæstv. landbrh. er að hann virtist viðurkenna að núverandi landbúnaðarkerfi væri gersamlega úr sér gengið, þ.e. að það væri dýrt, það væri þannig úr garði gert að þar væru teknar rangar ákvarðanir sökum þess að það tæki nánast ekki mið af lögmálum markaðarins og það fannst mér vera sú áhugaverðasta yfirlýsing sem hér kom fram. Það kom einnig fram hjá honum að frv. sem við ræðum hér er tilraun í þá veru að reyna að ganga skref a.m.k. áfram út úr því kerfi. Það var vissulega ánægjulegt að heyra að þessi umræða hefur loksins borist inn á borð þeirra sem með landbúnaðinn hafa vélað til margra ára.

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka fram að ég er almennt andvígur skattheimtu af þessu tagi, andvígur skattheimtu sem felur í sér millifærslur og annað sem hefur tíðkast í þessari grein í mörg ár og í marga áratugi. En hinu verður ekki neitað að við lestur þessa frv. og yfirferð þess er að finna ýmis viðhorf sem ég fagna mjög að eru komin inn í þessa grein og virðist a.m.k. vera ætlað það hlutverk að reyna að draga þessa grein inn í framtíðina og því verður ekki neitað að hér er gerð tilraun til þess að fara frá sértækum ákvörðunum yfir í almennar hvað skattheimtu varðar og það er vel. En að öðru leyti vil ég ítreka að ég er andvígur skattheimtu af þessu tagi.

Ég vil sérstaklega benda á 6. gr. frv. þar sem fram kemur hvernig skipta skuli tekjum af búnaðargjaldi, þar sem millifærslan er svona gerð nokkuð opinber í lögunum. En hinu er ekki að neita að það veldur mér talsverðum vonbrigðum að ekki skuli líka ákveðið í lögum, úr því að það á að fara þessa leið sem ég vil nú ekki leggja nafn mitt við, hvernig hluti Búnaðarsjóðs skiptist á milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinasamtaka í stað þess að það skuli ákveðið í reglugerð sem landbrh. setur að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands. Ég tel að ákvæði af þessu tagi eigi miklu frekar heima í lögum en í reglugerð og vænti þess að landbn. muni fara mjög ítarlega yfir þetta og vonandi tekst okkur að gera einhverjar breytingar á þessu frv. áður en það verður að lögum.

Að öðru leyti vil ég, virðulegi forseti, aðeins ítreka að ég er almennt andvígur skattheimtu af þessu tagi. Hún er greininni ekki til framdráttar og það er alveg ljóst að áfram á að líta á þessa grein sem einhvers konar ómaga í íslensku samfélagi sem ætíð þarf að lúta sérreglum. En jafnframt er rétt að taka fram og nefna það sem vel er gert að ég held að þetta frv. sé a.m.k. framfararspor frá því kerfi sem nú er þó að það sé langt frá því að vera gott.