Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 10:54:47 (4987)

1997-04-04 10:54:47# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Ég vil þakka honum út af fyrir sig fyrir það sem hann sagði þó jákvætt í garð frv. Hann telur að hér sé um að ræða breytingar, og það er vissulega svo, í þá átt að draga úr flóknu kerfi sem enginn ágreiningur er um að þarf að lagfæra. Ég tel að ég hafi oft áður lýst því yfir hér að það þurfi að gera breytingar á ýmsum þáttum í landbúnaðinum. Ég tel að ég hafi nánast allan þann tíma sem ég hef setið á stóli landbrh. unnið að því og sýnt að ég tel að ástæða sé til þess og búvörusamningurinn um sauðfjárræktina sýnir það líka að þar eru stigin skref til mjög ákveðinnar kerfisbreytingar, sérstaklega hvað varðar verðlagningar og framleiðslumálin, verðlagningar þó kannski sérstaklega. Það eru stærstu breytingarnar.

Og það að ég hafi viðurkennt eða sagt í framsögu minni að teknar hafi verið rangar ákvarðanir þá sagði ég orðrétt, til þess að það sé alveg á hreinu, að landbúnaðaryfirvöld hefðu oft verið sökuð um forsjárhyggju, flókið millifærslukerfi og fargan sem hefði verið sagt að leiddi til þess að skekkja samkeppnismynd og stuðlað þannig að rangri ákvarðanatöku. Þetta vil ég nú bara hafa á hreinu. Ég er ekkert að segja að það kunni ekki að hafa í einhverjum tilfellum leitt til þess. Það getur auðvitað hafa gert það og að þess vegna séu þessar fullyrðingar hafðar uppi, en það held ég að eigi ekki við um landbúnaðinn einan. Ætli það sé ekki hægt að segja það um flesta aðra þætti í okkar daglega lífi og mannlegu samskiptum að ýmsar ákvarðanir sem við erum að taka hafi ekki alltaf verið réttar, þær hafi stundum veri rangar og við höfum séð það eftir á.

Ég vil svo aðeins ítreka það, hæstv. forseti, sem ég sagði í lok framsöguræðu minnar að ég er auðvitað tilbúinn að skoða með hv. landbn. hugsanlegar breytingar á frv. og minna á það líka að málið er nú að fara í ítarlega kynningu innan Bændasamtakanna því hér er um mjög róttækar breytingar að ræða og Bændasamtökin og einstakir bændur þurfa að gera sér vel grein fyrir hvað er á ferðinni og hvernig staðið verður að málinu. Ítarleg kynning er því nauðsynleg af þeirra hálfu á þessu máli. Sú kynning eða umræða kann að leiða til þess að Bændasamtökin vilji koma með einhverjar hugmyndir um breytingar m.a. á því sem hv. þm. nefndi í sambandi við 6. gr., en ástæða þess að við völdum þann kostinn hér að setja þetta fram svona er að málið er ekki enn þá svo ítarlega kynnt fyrir bændastéttinni að auðvitað geta komið til hugmyndir um breytingar á skiptingu þessa gjalds sem þá væri auðveldara að gera ef það væri í reglugerð, a.m.k. að sinni af því að hér er um grundvallarbreytingu að ræða sem gæti þá síðar að fenginni reynslu orðið bundin í lögum. En ef nefnd og Bændasamtök yrðu sammála um að þetta yrði öðruvísi þá er ég að sjálfsögðu tilbúinn að hlusta á það.