Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 10:59:37 (4989)

1997-04-04 10:59:37# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:59]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara taka hér ítarlega umræðu um ágreining sem kann að vera milli okkar hv. þm. eða okkar flokka um landbúnaðarmálin. Sú umræða hefur oft átt sér stað bæði hér og í þjóðfélaginu víðar. En ég vil undirstrika að ég tel að hér sé á ferðinni frv. sem felur í sér róttækar kerfisbreytingar og það auðvitað þýðir að ég er þeirrar skoðunar að ýmsu þurfi að breyta í landbúnaðarkerfinu. Það hef ég margsinnis sagt og ég tel að mín ráðherratíð hafi líka sýnt að ég hef fullan vilja á því að gera þær breytingar.