Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:06:22 (4994)

1997-04-04 11:06:22# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. lög nr. 124/1995, þ.e. svonefndum búvörulögum. Frv. þetta er flutt á þskj. 806 og er 479. mál.

Frv. er tilkomið m.a. vegna óska Bændasamtaka Íslands um að lækka verðskerðingargjöld sem lögð eru á kindakjöt og ráðstafað er til markaðsaðgerða innan lands og utan. Tillögurnar eru fram komnar vegna þess að minni birgðir eru til af kindakjöti nú en verið hefur í mörg ár og því betra markaðsjafnvægi.

Verðskerðingargjöld af kindakjöti til markaðsaðgerða eru tekin af sauðfjárbændum og af sláturleyfishöfum. Þau hafa verið tekin með tvennum hætti. Annars vegar hafa verið tekin gjöld sem ráðstafað er árlega til markaðsaðgerða innan lands, svo sem til markaðssetningar á dilkakjöti og innmat og hins vegar gjöld sem tekin eru samkvæmt samningi um framleiðslu sauðfjárafurða frá 1. október 1995. Þau gjöld skal taka í tvö ár til að ná jafnvægi í birgðastöðu kindakjöts áður en hætt verður opinberri verðskráningu á kindakjöti til bænda haustið 1998. Taka þessara gjalda var ákveðin með samþykkt á bráðabirgðaákvæðum við búvörulög með lögum nr. 124 frá 6. desember 1995.

Ég mun fyrst víkja að breytingu verðskerðingargjalda sem ráðstafað er árlega til markaðsaðgerða innan lands. Þar er um að ræða breytingu á 20. og 21. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, búvörulögunum svokölluðu. Þessum greinum var breytt á þann veg með lögum um breytingu á búvörulögum frá 6. desember 1995 að gjaldtakan var bundin við 5% gjald af grundvallarverði kindakjöts til bænda og 3% gjald af slátur- og heildsölukostnaði kindakjöts. Áður gat landbrh. heimilað töku verðskerðingargjalda af bændum sem mátti nema allt að 5% af afurðaverði til framleiðenda, kæmi um það tillaga frá Bændasamtökunum. Einnig mátti landbrh. leggja á allt að 3% verðskerðingargjald á úrvinnslu- og heildsölukostnað afurðastöðva, kæmi um það tillaga frá landssamtökum sláturleyfishafa.

Með þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frv. mun verðskerðingargjaldið lækka úr 5% í 3% sem innheimt verður af verði til framleiðenda kindakjöts. Sú breyting tekur til allrar framleiðslu frá og með gildistöku frv. Þar sem framleiðslan fellur nánast eingöngu til að hausti munu tekjur af verðskerðingargjaldi til markaðsaðgerða lögðum á framleiðendur næsta haust nema um 43 millj. kr. í stað 72 millj. og lækka á ársgrundvelli um 29 millj.

Með breytingu sem lögð er til í 2. gr. frv. mun verðskerðingargjaldið sem innheimt er hjá afurðastöðvum af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts lækka úr 3% í 1,8%. Tekjur af gjaldinu munu lækka úr 29 millj. í um það bil 17 millj. kr. á ári eða um 12 millj. Samanlagt lækka því verðskerðingargjöld lögð á bændur og sláturleyfishafa vegna þeirra breytinga á verðskerðingargjöldum sem felast í 1. og 2. gr. frv. um 41 millj. kr. á ári.

Með breytingu sem lögð er til í 3. gr. frv. verða bráðabirgðaákvæði búvörulaganna, sem komu til framkvæmda með lögunum nr. 124 frá 6. desember 1995 um viðbótarverðskerðingargjöld sem taka skal árin 1996 og 1997, felld niður. Við þá breytingu lækkar verðskerðingargjaldið sem innheimt er af verði til framleiðenda kindakjöts úr 3% í 0% eða um 43 millj. á ári og verðskerðingargjald sem innheimt er hjá afurðastöðvunum af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts úr 2% í 0% eða um 19 millj. kr. Hér er því um að ræða lækkun á viðbótarverðskerðingargjöldum um 62 millj. á yfirstandandi ári. Því til viðbótar kemur áðurnefnd lækkun verðskerðingargjalda um 41 millj. Samtals munu því verðskerðingargjöldin á kindakjöti lækka um 103 millj. kr. á þessu ári verði frv. þetta að lögum.

Ríkisstjórn Íslands og Bændasamtökin gerðu sín á milli samning um framleiðslu sauðfjárafurða þann 1. október 1995. Í þeim samningi voru m.a. ákvæði um að koma skyldi birgðum kindakjöts í ásættanlegt magn innan tiltekins tíma. Birgðir kindakjöts í byrjun sláturtíðar haustið 1995 voru 2.225 tonn af dilkakjöti og 442 tonn af kjöti af fullorðnu fé. Æskilegar birgðir eru í samningnum taldar vera um 500 tonn eða tæplega fimmti hluti þeirra birgða er þá voru til staðar. Gert var ráð fyrir að tvö ár tæki að ná þeirri birgðastöðu sem að var stefnt. Miðað var við að birgðajafnvægi skyldi komið á áður en opinber verðlagning á sauðfjárafurðum til bænda yrði aflögð haustið 1998. Því var í áðurnefndu bráðabirgðaákvæði ákveðið að innheimta árin 1996 og 1997 sérstakt 3% verðskerðingargjald af bændum og 2% verðskerðingargjald af sláturleyfishöfum til markaðsaðgerða er kæmu til viðbótar verðskerðingargjöldum skv. 20. og 21. gr. laganna. Jafnframt var ákveðið að ráðstafað skyldi í sama skyni fé sem ætlað var til uppkaupa á greiðslumarki skv. 5. gr. samningsins um framleiðslu sauðfjárafurða sem ekki nýttist til uppkaupa á samningstímanum.

Afsetning birgða gekk hraðar en áætlað hafði verið. Í byrjun sláturtíðar haustið 1996 voru birgðir dilkakjöts 755 tonn og birgðir af kjöti af fullorðnu fé um 165 tonn. Því til viðbótar var framleiðsla á liðnu hausti nokkru minni en gert var ráð fyrir þegar ákvörðun um útflutningsskyldu skv. 29. gr. laga nr. 99/1993 var tekin fyrir framleiðslu haustið 1996. Áætlunin stóðst ekki vegna þess að fallþungi dilka hafði reynst minni en spáð hafði verið. Þetta samanlagt leiddi til þess að birgðir kindakjöts voru um síðustu áramót komnar í það horf að jafnvægi var talið fullkomlega náð. Birgðir kindakjöts höfðu minnkað um 1.886 tonn á árinu. Töldu sumir mikla bjartsýni að ætla að það næðist þegar samningurinn var gerður.

Með þessari breytingu sem hér eru lögð til munu verðskerðingargjöld af kindakjöti sem lögð eru á framleiðendur og sláturleyfishafa til markaðsaðgerða lækka á þessu ári um 2/3 hluta frá því sem var á liðnu ári.

Hæstv. forseti. Rétt er að vekja athygli á að við niðurfellingu bráðabirgðaákvæðis í lið 3 í búvörulögunum fellur brott ákvæði sem segir að einnig skuli verja fé sem ekki nýtist til uppkaupa á greiðslumarki sauðfjár samkvæmt ákvæðum búvörusamningsins til markaðsaðgerða til að tryggja jafnvægi í birgðum kindakjöts svo sem áður er rakið. Þetta ákvæði þjónar ekki tilgangi lengur þar sem markaðsjafnvæginu er náð að því er talið er.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.