Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:36:53 (4998)

1997-04-04 11:36:53# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir að gefa ræðuhöldum mínum hér á Alþingi almennt þá einkunn að þær séu yfirleitt skynsamlegar. Ég er sammála því. Ég tel að svo sé í öllum aðalatriðum. (Gripið fram í: Hver sagði það?) Ég hef sérstakt vottorð um það frá talsmanni Alþfl. að ræðuhöld mín hér séu frekar skynsamleg og það er meira en sagt verður um hv. þm. Árna Mathiesen. Það hefur engum manni dottið í hug að gefa honum slíka einkunn.

Það sem ég átti sérstaklega við, herra forseti, þegar ég talaði um þreytuleg ónot og kæk af hálfu Alþfl., var alveg sérstaklega það að fást ekki til að viðurkenna það sem gert hefur verið, að ræða um þessa hluti eins og ekkert hafi gerst, eins og hér sé enn í gildi forstokkað og frosið kerfi sem engum breytingum hafi tekið. Það er allt í lagi að gagnrýna og auðvitað eigum við að halda áfram að vinna að skoðun á þessum málum. En við eigum að gera það af sanngirni og raunsæi gagnvart því sem þegar hefur verið gert. Við eigum að viðurkenna þær breytingar sem hafa orðið og við eigum að viðurkenna þær fórnir sem hafa verið færðar í þágu þeirra breytinga. Þá finnst mér reisn að málflutningi manna ef þeir gera það. Það er það sem ég vísa hér sérstaklega til þegar mér finnast þessi ræðuhöld Alþfl. þreytt af því að þau taka ekki mið af þessum nýja veruleika í landbúnaðinum og því sem þarna hefur verið gert.

Varðandi kerfið sem Alþfl. telur sig hafa einkarétt á að gagnrýna, þá er ágætt, herra forseti, að rifja það þá upp fyrir Alþfl., jafnaðarmannaflokknum, af því að það verður að hafa hv. þm. Ágúst Einarsson með og þá verður maður að segja jafnaðarmenn --- hvenær byrjuðu þessi ósköp? Hvenær voru stærstu ákvarðanirnar teknar sem leiddu íslenskan landbúnað í þá stöðu sem hann var kominn í um 1980? Þær voru teknar á ríkisstjórnarárum Alþfl. Menn geta auðvitað endalaust þvegið hendur sínar og sagt: Gylfi Þ. Gíslason gagnrýndi þetta. En sat hann ekki í ríkisstjórn í ein 12 ár? Og hvað gerði ríkisstjórnin sem þá átti í hlut? Hún tók upp útflutningsuppbótakerfið. Það var hún sem ýtti undir þá framleiðslusprengingu í íslenskum landbúnaði sem leiddi hann inn í þá hroðalegu stöðu sem hann var kominn í undir lok 8. áratugarins þannig að ábyrgð Alþfl. að þessu leyti er líka mikil. Það ætti Alþfl. að muna þegar hann er að gera sig heilagan hér í ræðustól, þvo hendur sínar af öllu sem miður hefur farið og eigna sér einkarétt á því að gagnrýna þetta og hafa vit á þessum málum.