Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:43:22 (5001)

1997-04-04 11:43:22# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf gaman þegar innri maður þingmanna kemur fram eins og gerðist í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Þar kom alveg skýrt fram að hann er að verja kerfi sem er gersamlega staðnað. Fram kom íhaldshyggja hans og framsóknarmennska þegar kemur að landbúnaðarmálum. Við höfum heyrt þessa tóna áður frá hv. þm. Ég bendi hins vegar á að stuðningur við landbúnað hér á landi er á annan tug milljarða á ári. Hann er einn sá hæsti í heiminum. Matarverð hér á landi er 35% hærra heldur en er í Evrópusambandsríkjunum. Staða bænda er mjög döpur. Fátækt meðal bænda er mikil og þá sérstaklega sauðfjárbænda, en þá kemur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ver þetta kerfi. (SJS: Nei.) Hann ver kerfi sem hefur ekki skilað bændum góðum lífskjörum heldur fátækt og ver kerfi sem hefur skilað neytendum dýrum matvælum. Hann gengur fram fyrir skjöldu og hann gengur lengra heldur en hæstv. landbrh. í varðgæslu fyrir þetta ónýta kerfi. Það erum við að gagnrýna. Ég hef bent á það í ræðu minni. Hér er verið að gera smávægilegar endurbætur á núverandi kerfi. Samt sem áður er heildarniðurstaðan sú að stuðningur við bændur og landbúnaðarframleiðslu er einn sá mesti í heiminum. Matarverð er eitt það hæsta og bændur einna fátækastir. Ég veit ekki til þess að staða sauðfjárbænda í Norðurl. e. sé þannig að það eigi að standa vörð um þetta kerfi eins og það er í dag.