Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:45:15 (5002)

1997-04-04 11:45:15# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt málflutningur af þessu tagi sem ég á við þegar ég tala um úreltan, þreytulegan kæk Alþfl. að fjalla um þessa hluti með þessum hætti. Ég geri stóran greinarmun á orðaskiptum mínum við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem voru þó málefnaleg, og þessu síðasta innleggi frá jafnaðarmannaflokki heimsins. Það var ómerkilegt að koma hér upp og segja að ég hafi alveg sérstaklega gengið fram fyrir skjöldu í að verja þetta vonda kerfi óbreytt með öllum þess afleiðingum. Ég vilji sem sagt kerfi sem er vont fyrir bændur, vont fyrir neytendur og vont fyrir alla og ég standi hér sem sérstakur varðgæslumaður þess.

Hvert var megininntak í gagnrýni minni á málflutning jafnaðarmanna? Það var að þeir viðurkenndu ekki þær breytingar sem búið er að gera, þeir ræði málin eins og ekkert hafi gerst, eins og menn standi hér og reyni að verja þetta kerfi. Ætli það sé nokkur maður sem er enn þá í stjórnmálum á Íslandi sem sé ósanngjarnara að segja einmitt þetta um heldur en ræðumann? Ætli aðrir hafi staðið fyrir stórtækari breytingum á þessu kerfi? Ég bar pólitíska ábyrgð á því að bera hér fram búvörusamninginn 1991. Þannig dæmir sagan orð sem hv. þm. Ágúst Einarsson lætur hér falla dauð og ómerk og rúmlega það. Og þetta er málflutningur sem skilar okkur ekki neinu, að vera að bera hver annan svona sökum. Hv. þm. Ágúst Einarsson verður að haga máli sínu öðruvísi ef hann ætlar að vera marktækur í umræðum um þessi mál.

Það er að sjálfsögðu ýmislegt enn sem við vildum sjá fara í betur í landbúnaði í dag. Við vildum sjá kjör þess fólks sem við þetta starfar, bæði bænda og ýmissa fleiri, betri og við vildum að þetta gæti skilað sem lægstu vöruverði til neytenda. Við viljum væntanlega líka að þjóðin sé sem mest sjálfri sér næg um þessar vörur, eða erum við ekki sammála um það? Og við viljum gjarnan sjá sveitir landsins í byggð, er það ekki? Auðvitað er þetta þannig. Auðvitað vill enginn viðhafa hér alvont kerfi sem er vont fyrir alla. Hverjum dettur í hug að það finnist einhver stjórnmálamaður á byggðu bóli sem gangi fram með þannig málflutning?