Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:47:36 (5003)

1997-04-04 11:47:36# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:47]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Gagnrýni okkar jafnaðarmanna á landbúnaðarkerfið er í fyrsta lagi áratuga gömul og í öðru lagi hefur hún alltaf verið málefnaleg. Við höfum gagnrýnt þetta kerfi. Ég tók sérstaklega fram áðan að það hafa verið gerðar umbætur í núverandi kerfi en það er kerfið sem er ónýtt. Það sem ég er að gagnrýna hv. þm. fyrir er að hafa enn og aftur talað um það sem leið að gera umbætur í núverandi kerfi. Það er sú leið sem við jafnaðarmenn höfum hafnað. Það er að berja höfðinu við stein að viðurkenna ekki þær staðreyndir sem ég rakti hér um mikinn stuðning við landbúnað, hátt matarverð hér á landi og fátækt bænda. Það er eitthvað að því kerfi sem þessir tveir flokkar hafa búið um, Sjálfstfl. og Framsfl. Það er óþarfi af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að slást í lið með þessum flokkum í að viðhalda steinrunnu kerfi. Ég vil miklu frekar taka þátt í því með hv. þm. að stokka upp þetta kerfi vegna þess að ég hef áhyggjur af því sem ég rakti í minni ræðu að 25% bænda gera ráð fyrir að býli þeirra leggist í eyði. Ég hef áhyggjur af þeirri búseturöskun sem þessi helstefna ríkisstjórnarinnar er að valda bændastéttinni. Ég hef áhyggjur af afkomu sauðfjárbænda og ég segi, og það er meginatriðið í þessu máli: Við verðum að breyta gersamlega því framleiðslustýringar- og styrkjakerfi sem við búum við í íslenskum landbúnaði. Það hefur ekki leitt til neins annars en ófarnaðar og þetta er málefnaleg umræða, herra forseti, eins og málflutningur okkar jafnaðarmanna í þessum efnum hefur alltaf verið.