Eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:17:09 (5009)

1997-04-04 12:17:09# 121. lþ. 99.11 fundur 477. mál: #A eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:17]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum sem flutt er, eins og fram kom hjá forseta á þskj. 804 og er 477. mál. Frv. þetta var lagt fyrir Alþingi til kynningar á liðnu vori og byggist á tillögum nefndar sem landbrh. skipaði á árinu 1994 til þess að endurskoða lög nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Í nefndinni sátu Andrés Jóhannesson kjötmatsformaður, Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur, Guðjón Þorkelsson matvælafræðingur og Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir, sem var formaður nefndarinnar.

Gildandi lög um þetta efni frá 1966 hafa að mestu staðið óbreytt síðan þau voru sett og staðist býsna vel breytta tíma. Löggjöf nágrannalandanna um þessi efni eru einnig frá svipuðum tíma og nú hafa þau hvert á fætur öðru á síðustu 3--4 árum sett ný lög um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Með þeirri endurskoðun sem hér liggur fyrir er fyrst og fremst verið að laga lögin að breyttum tímum og breyttum viðhorfum í þessum efnum með hliðsjón af reglum á helstu markaðssvæðum fyrir kjöt- og sláturfurðir. Nýju lögin í Danmörku og Svíþjóð, svo og reglur ESB voru höfð til hliðsjónar við samningu þessa frv.

Viðhorf varðandi eftirlit með matvælum hafa talsvert breyst á undanförnum árum. Nú er lögð sífellt meiri áhersla á að færa eftirlitið framar í framleiðslukeðjuna og skoðun á tilbúinni vöru hefur fengið minna vægi.

Ekki er sama áhersla lögð á stórstígar breytingar á afurðunum heldur hreinleg vinnubrögð og að komið sé í veg fyrir að örverur, sem valdið geta matarsýkingum, geti borist með hráefninu. Miklar breytingar hafa orðið á slátrun og meðferð kjöts og sláturafurða hér á landi. Nú er farið að slátra allt árið um kring, en slátrun var áður að mestu leyti aðeins á haustin. Fyrir 10--20 árum var nánast allt kjöt fryst strax eftir slátrunina en núna er svínakjöt og nautakjöt selt kælt. Allt hrossakjöt sem fer í útflutning til Japans, svo dæmi sé tekið, er kælt en ekki fryst. Augljóslega þarf að gera miklar kröfur um hreinlæti við slátrun og alla meðferð á kjöti í slíkum viðskiptum ef það á að hafa nægjanlegt geymsluþol og hollusta að haldast.

Þessi breyting á slátrun og verslunarmáta kallar á miklu nánara og virkara heilbrigðiseftirlit með öllu ferlinu, frá bónda til borðs. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að frá síðustu árum hafa matarvenjur breyst, t.d. hefur matreiðsla flust í meiri eða minni mæli frá heimilum í stóreldhús eða vinnslur sem búa til hálftilbúna rétti til sölu í verslunum og stórmörkuðum. Einnig er mikilvægt að samfella sé í eftirlitinu með afurðunum. Hugtakið ,,frá bónda til borðs`` er sprottið af þessari hugsun.

Í samræmi við þetta er gildissvið laganna víkkað þannig að einnig sé unnt að hafa eftirlit með eldi og heilbrigði sláturdýra heima á býlunum sjálfum. Í eldri lögum voru ákvæði um skoðun á lifandi búfé í sláturhúsrétt, en nú er gert ráð fyrir að landbrh. setji reglur um skoðun, rannsóknir og sýnatökur í hjörðum sláturfjár á framleiðslustöðunum hjá bændunum. Í raun hefur þetta þegar hafist með sýnatöku vegna salmonellu í alifuglabúum og hefur gefið góða raun.

Sem dæmi má nefna að jákvæðum sýnum sem tekin eru af kjúklingabúum á eldistímanum hefur fækkað úr 14,86 árið 1993 í 3,6 árið 1996. Einnig er gert ráð fyrir að unnt sé að gera kröfur um að einungis hrein sláturdýr komi til slátrunar. Þetta er mikilvægt vegna þess að ekki er unnt að slátra óhreinum sláturdýrum svo vel fari og mikil hætta er á að örverur og margvíslegir sýklar berist í afurðirnar, stytti geymsluþol þeirra og geti valdið matareitrun og matarsýkingu. Nauðsynlegt er að eftirlit sé með því heima á býlunum hvort sláturdýrin eru hrein því of seint er að gera það þegar þau eru komin í sláturhúsið.

Önnur viðhorfsbreyting, sem frv. tekur einnig mið af, er aukin krafa um innra eftirlit fyrirtækjanna sjálfra. Sífellt meiri áhersla er lögð á gæðastjórnun í matvælaframleiðslu og þar með bætt eftirlit framleiðendanna sjálfra með framleiðslunni. Í frv. er gert ráð fyrir að landbrh. setji reglur um innra eftirlit í sláturhúsunum og kjötvinnslum þeirra og er það í samræmi við IX. kafla í 23. gr. í lögum nr. 93/1995, um matvæli. Brýnt er að lögfest verði krafa um innra eftirlit í sláturhúsunum. Þetta er þegar orðinn og verður sífellt mikilvægari þáttur í heilbrigðiseftirliti í sláturhúsum og kjötvinnslum og er nú mjög mikilvæg krafa eftirlitsaðila á helstu markaðssvæðum fyrir kjöt og kjötafurðir og því mikilvægt að unnt sé að nota opinberar reglur um slíkt eftirlit.

Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að í hverju sláturhúsi starfi slátraramenntaður starfsmaður. Mjög nauðsynlegt er að auka verkkunnáttu við slátrun og meðferð sláturafurða í sláturhúsum. Þótt hér hafi lengi verið þörf fyrir slíka starfsmenntun varð fyrst grundvöllur fyrir hana þegar slátrun á nautgripum, hrossum og svínum fór að dreifast nokkuð jafnt yfir allt árið. Reynslan erlendis sýnir að í kjölfar fækkunar og stækkunar á sláturhúsum rísa oft lítil sláturhús. Það nýjasta í þeirri þróun er bygging færanlegra sláturhúsa sem geta farið milli bæja og héraða. Nauðsynlegt er að tryggja að í slíkum sláturhúsum sé fyrir hendi starfs- og fagþekking vegna þessarar vinnu með því að gera kröfu um að við hvert sláturhús starfi a.m.k. einn slátrari og sé það skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

Þá verður að telja tímabært að gera breytingar á skipulagi gæðamatsins, á kjöti, einkum að því er varðar yfirstjórn þess, til þess einkanlega að gera það einfaldara, ódýrara og sveigjanlegra. Lagt er til að stöður yfirkjötsmatsmanna í hverjum fjórðungi verði lagðar niður og er ekki talið að það hafi áhrif á skilvirkni matsins.

Nefndin sem vann að undirbúningi þessa frv. sendi spurningalista til helstu hagsmunaaðila varðandi það hvort áfram ætti að gæðameta kjöt og viðhalda skyldi núverandi fyrirkomulagi í sambandi við gæðamatið. Mjög skýrt kom fram í svörunum að hagsmunaaðilar vilja áfram gæðamat á kjöti og telja núverandi fyrirkomulag á gæðamati og flokkun gott. Hins vegar þótti ástæða til að koma á nokkurri einföldun og draga úr kostnaði við matið.

Hæstv. forseti. Ég ætla gera stuttlega grein fyrir þeim greinum frv. sem hafa að geyma nýmæli. Í 2. gr. er gildissvið laganna skilgreint. Það er nýmæli sem ég hef áður gert grein fyrir að færa eftirlitið framar í framleiðslukeðjuna og hafa eftirlit með eldi og heilbrigði sláturdýra.

Þá er gert ráð fyrir að eftirlit með heimaslátrun og með villibráð sem fer til vinnslu og manneldis. Frv. tekur til eftirlits með útflutningi og innflutningi á sláturafurðum og unnum kjötvörum og er það í sambandi við 6. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995.

Í síðustu málsgrein 5. gr. er lögfest að eigendur lögbýla megi slátra búfé sínu á sjálfu býlinu til eigin neyslu. Þetta er nýmæli. Engin ákvæði hafa verið í lögum um heimaslátrun en hún hefur viðgengist frá aldaöðli. Ekki er talin ástæða til að leggja þennan sið af og einnig yrði mjög erfitt að framfylgja slíku banni eins og reynsla undanfarinna ára hefur berlega leitt í ljós. Tekið skal skýrt fram að ekki er ætlast til þess að þetta ákvæði veiti heimild til þess að nýta þær afurðir í greiðasölu ef á býlinu er rekin bændagisting eða viðlíka starfsemi. Gert er ráð fyrir að landbrh. geti sett reglur um sýnatöku úr sláturdýrum sem slátrað er heima og úr afurðum þeirra. Þetta er nauðsynlegt til þess að unnt sé að fylgjast með útbreiðslu dýrasjúkdóma.

8. gr. er um skyldu ráðherra til að setja reglur um flutning á kjöti og sláturafurðum á markað. Almennt er talið að á þessu sviði sé víða pottur brotinn og brýn þörf á að setja nánari reglur.

Í 9. gr. er veitt undanþága frá hinni almennu skyldu að dýrum skuli skuli slátrað í sláturhúsi ef selja á afurðirnar á markaði. Nauðsynlegt er vegna dýraverndunarsjónarmiða að hafa slíka heimild í lögum og er það í samræmi við reglur nágrannalandanna.

Í 11. gr. er að finna ákvæði varðandi greiðslu fyrir heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum og eru þau ákvæði í samræmi við breytingar sem þegar hafa verið gerðar á gildandi lögum.

Skv. 12. gr. er gert ráð fyrir að dýralæknar skuli annast heilbrigðisskoðun á sláturdýrum og sláturafurðum. Ekki er lengur talin þörf á heimild til að ráðherra skipi lækni til að heilbrigðisskoða kjöt eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Í greininni er einnig ákvæði um að kjötskoðunarlæknar eigi að hafa eftirlit með hreinlæti í sláturhúsum og kjötvinnslustöðvum og allri meðferð afurðanna. Í gildandi lögum er bæði kjötmatsmönnum og dýralæknum falið eftirlit með hreinlæti í sláturhúsum. Eðlilegast er talið að einn aðili beri ábyrgð á slíku eftirliti.

Í 14. gr. er að finna ákvæði um heilbrigði afurðanna og meðhöndlun þeirra. Þar er, eins og reyndar í gildandi lögum, bann við framleiðslu, sölu og afhendingu á óhreinum, menguðum og skemmdum afurðum og afurðum sem eru annarlega lyktandi eða útlítandi.

Þá er þar að finna ákvæði um að landbrh. geti fyrirskipað dreifingarbann, upptöku og eyðingu á vörum sem ekki uppfylla kröfur eða gerðar eru í lögunum eða reglur sem settar eru samkvæmt þeim.

Í 19. gr. er heimild um óheftan aðgang fyrir eftirlitsaðila að húsnæði og fyrirtækjum sem geymir sláturdýr og afurðir þeirra til að tryggja nauðsynlegt eftirlit með ákvæðum þessara laga.

Í 20. gr. er ákvæði sem ætlað er að tryggja að ekki séu fluttar úr landi afurðir sem uppfylla ekki kröfur innflutningslandsins.

Hæstv. forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar og athugasemda með frv. og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.