Viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:32:28 (5014)

1997-04-04 12:32:28# 121. lþ. 99.12 fundur 480. mál: #A viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þeirri þáltill. sem ég mæli hér fyrir er leitað heimildar Alþings um að heimila ríkisstjórninni að samþykkja fyrir Íslands hönd breytingar og viðbætur við I. viðauka við samning frá 2. maí 1992 um Evrópska efnahagssvæðið.

Samræmdar heilbrigðisreglur í viðskiptum með dýr og dýraafurðir, þar með taldar fiskafurðir, voru teknar upp innan EB þann 1. janúar 1997. Þær fela í sér að í viðskiptum milli aðildarríkja EB með umrædd dýr og afurðir þeirra er meginreglan sú að heilbrigðiseftirlit fer einungis fram á sendingarstað. Heilbrigðiseftirlit og gjaldtaka við innflutning frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins eru samræmd og fela í sér ítarlegri skoðun, aukið eftirlit og hærri gjaldtöku en tíðkaðist áður í aðildarríkjum EB.

Þar sem 60--70% íslenskra fiskafurða hafa á síðustu árum verið flutt út til EB var ljóst að ef ekkert yrði að gert mundu samræmdar heilbrigðisreglur þar gagnvart þriðju ríkjum hafa miklar breytingar í för með sér fyrir íslenskan sjávarútveg. Eftirlit með íslenskum fiskafurðum hefði aukist úr litlu sem engu upp í 20--50%. Það hefði leitt til tímafrekara eftirlits á landamærum, auk þess sem einungis hefði verið heimilt að flytja fisk og fiskafurðir út til tiltekinna hafna eða flugvalla innan EB. Enn fremur hefðu umræddar breytingar haft aukinn kostnað í för með sér.

Samningaviðræðum milli EES-ríkjanna um að ofangreindar reglur nái til alls Evrópska efnahagssvæðisins lauk með samkomulagi í nóvember sl. Samkomulagið felur í sér að heilbrigðisskoðanir á íslenskum og norskum fiskafurðum verða felldar niður á landamærum bandalagsins en við innflutning frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins munu gilda samræmdar reglur. Samkomulagið felur enn fremur í sér að reglurnar nái einungis til Íslands varðandi fiskafurðir, en til Noregs einnig varðandi önnur dýr og þar með taldar landbúnaðarafurðir.

Í samningaviðræðunum náðist bráðabirgðasamkomulag um að EB skyldi ekki beita hinum nýju hertu reglum um heilbrigðisskoðanir á landamærum sínum gagnvart Íslandi og Noregi í ljósi þess markmiðs að þær ættu að ná til alls Evrópska efnahagssvæðisins. Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella áðurnefnt samkomulag inn í EES-samninginn er í fskj. I við þáltill. þessa. Fyrirhugað er að sameiginlega EES-nefndin samþykki þau á fundi sínum í lok þessa eða næsta mánaðar.

Umrætt samkomulag kallar á lagabreytingar hér á landi. Hæstv. sjútvrh. mælti í fyrradag fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra og inniheldur frv. nauðsynlegar lagabreytingar vegna þessa máls og þar með hefur efnisleg umræða farið fram á Alþingi.

Ég vil að lokum leggja til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.