Viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:36:24 (5015)

1997-04-04 12:36:24# 121. lþ. 99.12 fundur 480. mál: #A viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:36]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Samkvæmt þingsköpum Alþingis fara eins og kunnugt er fram þrjár umræður um lagafrumvörp og þau eru send til nefndar á milli 1. og 2. umr. og á það bæði við um stór mál og smá. Staðreyndin er sú að það er tiltölulega fljótlegt að fjalla um sum þessara mála en önnur taka lengri tíma og síðan fá þingsályktunartillögur sérstaka meðferð og um það er kveðið á í þingsköpum og þar er líka um að ræða stór mál og smá.

Þegar kemur hins vegar að málum af þessu tagi, verður maður dálítið hugsi yfir stöðu Alþingis, dálítið hugsi að ekki sé meira sagt vegna þess að hér er flutt till. til þál. um samþykkt á breytingum og viðbótum við I. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem er þskj. upp á 80--90 blaðsíður, þéttskrifaðar síður, og það er nokkurn veginn alveg vitað mál að þingið hefur ekki ráðrúm til þess að fara yfir þessa hluti nægilega vel í einstökum atriðum.

Í öðru lagi er ljóst að þingið á fá önnur úrræði en að samþykkja plaggið. Eða lítur hæstv. utanrrh. þannig á að Alþingi geti breytt einhverju í innihaldi þeirra texta sem hér eru? Eða stöndum við hér við þessa flæðilínu frá Brussel sem er farin að skila þeim niðurstöðum í störfum þinganna í Evrópu að hlutur þeirra er að verða minni og minni og frumkvæði að umræðu, lagasetningu og ákvarðanatöku er annars staðar? Það er áhyggjuefni. Mér finnst satt að segja, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á þessum bandalögum, að menn eigi að velta því fyrir sér hvort þær aðferðir, sem viðhafðar eru í þessum samskiptum okkar við þessi bandalög, eru myndugar í þeim skilningi að það sé ævinlega eins og sjálfstætt og fullvalda ríki sé að taka á málum eða hvort þess gætir kannski stundum að frumkvæðið verði til hjá öðrum og þessi aðili, í þessu tilviki Ísland og Alþingi Íslendinga, verði að taka við því sem að höndum ber og það er niðurlægjandi aðstaða.

Nú á þessi aðstaða að sumu leyti líka við Noreg og Liechtenstein eins og kunnugt er og mér finnst í sjálfu sér að það væri umhugsunarvert hvort þetta ferli megi ekki skoða á einhvern heildstæðan hátt því að ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um að þjóðirnar á Íslandi, í Liechtenstein og í Noregi muni ekki þola það til margra ára eða áratuga að sitja frumkvæðislaus við þessa flæðilínu, að það muni enginn láta bjóða sér það til mjög langs tíma. Þess vegna er ég nokkuð sannfærður um að það verður gerð krafa um að þjóðirnar fái myndugri aðild og frumkvæðisrétt á undirbúningsstigi en þurfi ekki að taka við þessum pappírum eins og hverri annarri máltíð sem er borin fyrir menn sem sitja við borð og bíða eftir að þeim séu færðar veitingarnar.

Ég vil láta þessar áhyggjur koma fram í þessari umræðu af því að mér finnst þetta vera stórmál. Mér finnst það stórmál hvernig Alþingi virðir sjálft sig bæði í þessu máli sem hér liggur fyrir og öðrum. Hluti af þessu máli kemur hér inn í formi frumvarpa eins og þegar hefur gerst og sjálfsagt kemur einhver hluti enn frekar hér inn í formi frumvarpa til frekari útfærslu á málum. En þegar þetta þykka og mikla þingskjal, sem ég fullyrði að fáir hafi haft tök á að kynna sér í þaula, kemur hér til meðferðar þá finnst mér það kalla á að þessum áhyggjum sé lýst og það hef ég gert af minni hálfu.