Viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:41:23 (5016)

1997-04-04 12:41:23# 121. lþ. 99.12 fundur 480. mál: #A viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er margt til í því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan. Það fer fram mótun á ýmsum reglum og ákvæðum á vettvangi Evrópusambandsins sem hefur áhrif á íslenskt þjóðfélag. Það væri rangt að neita því. Það liggur alveg ljóst fyrir. Og við erum að yfirtaka ýmsar tilskipanir sem þar eru mótaðar. Við höfum leitast við það að undanförnu að reyna að komast meira inn í þá atburðarás á undirbúningsstigi. Það liggur alveg ljóst fyrir að við getum haft veruleg áhrif á undirbúningsstigi en það er hins vegar miklu erfiðara að hafa veruleg áhrif þegar mál eru komin á lokastig.

Núna hefur Ísland aðgang að rúmlega 300 nefndum á vegum Evrópusambandsins. Við höfum að sjálfsögðu ekki möguleika á að sinna öllum þeim nefndum en við höfum tækifæri til að sinna þeim málum sem við teljum þýðingarmest. Samstarf innan Norðurlandaráðs og á vettvangi Norðurlandasamstarfsins fer vaxandi og að mínu mati er mikilvægt að öll þjóðþingin sinni þeim málum meira þannig að þingin geti þannig m.a. komið meira að málum á undirbúningsstigi í samvinnu við þingnefndir í löndunum.

Ég tek undir það með hv. þm. að þetta eru atriði sem þarf að fara yfir og væri eðlilegt að væru rædd ekki síst af forustu Alþingis. Ráðuneytin fylgjast með málum í aðalstöðvum Evrópusambandsins m.a. þau sem hafa fulltrúa sem starfa þar á vegum ráðuneytanna við sendiráðið. Hvort Alþingi vill ganga svo langt að fylgjast beint með einhverju af því starfi með því að fulltrúi þaðan, embættismaður þingsins, sé þar staðsettur skal ég ekkert fullyrða um en það er nauðsynlegt að mínu mati að fara yfir þetta.

Að því er varðar þessa þáltill. þá er hér eins og ég gat um ekki eingöngu verið að flytja þáltill. um þetta heldur jafnframt lagafrv. sem fjallar um sama málið. Það þýðir að í reynd verður fjallað um þetta mál bæði í utanrmn. og síðan í sjútvn. og þingleg meðferð þess máls verður að sjálfsögðu hjá öðrum lagafrv. Það er rétt að hér er um mikið skjal að ræða og þykktin hefði í sjálfu sér getað verið miklu meiri ef fleiri tilskipanir hefðu verið birtar með þingskjalinu. Hér er ákveðið úrval tilskipana birt með. En þessar tilskipanir eru mjög tæknilegs eðlis og er vart hægt að reikna með því að þingmenn geti sökkt sér ofan í þær. Þeir verða því að treysta á umsagnaraðila í því sambandi því að auðvitað hafa ýmis hagsmunasamtök komið að þessu máli á undirbúningsstigi því að hér er um gífurlegt hagsmunamál að ræða fyrir íslenskan sjávarútveg. Ef þessi samningur væri ekki staðfestur þá hefði það mjög neikvæð áhrif á útflutning sjávarafurða frá Íslandi.

Ég vil hins vegar taka fram að hér er verið að leita eftir samþykki fyrir því að fella þetta inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það hefur ekkert verið undirritað enn sem komið er með fyrirvara af okkar hálfu og það hlýtur að teljast jákvætt í sjálfu sér að málið skuli vera lagt fram með þeim hætti og það verður ekki sem sagt framkvæmt fyrr en þingið hefur um það fjallað.

En ég tek undir það með hv. þm. að við stöndum frammi fyrir því að annaðhvort erum við með í þessu eða ekki. Það er staðreynd málsins. Og ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það. En ég tel að það sem hv. þm. sagði sé tímabært og við eigum að halda áfram að ræða hvernig þingið getur betur komið að undirbúningi mála þannig að það standi ekki frammi fyrir orðnum hlutum og geri sér betur grein fyrir því á undirbúningsstigi.