Viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:47:28 (5017)

1997-04-04 12:47:28# 121. lþ. 99.12 fundur 480. mál: #A viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í fyrsta lagi þakka ég hæstv. utanrrh. fyrir almennar undirtektir undir mál mitt hér. Það kemur mér ekki á óvart vegna þess að þetta eru þau sjónarmið sem bæði Framsfl. og Alþb. höfðu þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var hér til umræðu, þ.e. að vandinn væri kannski ekki síst fólginn í því að frumkvæðið yrði flutt annað og möguleikarnir til að hafa áhrif á lagasetningu yrði ekki lengur bundnir eingöngu við þennan sal heldur kæmu þeir annars staðar að. Ég held líka að það kæmi til greina að reyna að skoða það sem hann nefndi í máli sínu, þ.e. að starfslið á vegum Alþingis yrði sett í að fylgjast með málum á undirbúningsstigi. Ég óttast hins vegar dálítið að það sé flókið mál vegna þess að hér er um að ræða stóran frumskóg. Hæstv. ráðherra nefndi að um væri að ræða um það bil 300 sérfræðinganefndir sem þyrfti þá að fylgjast með og það er hætt við því að eftirfylgja eða skoðun mála af hálfu Alþingis á undirbúningsstigi yrði býsna yfirborðskennd nema menn legðu í það þeim mun meiri fjármuni og ég óttast að það yrði kannski erfitt að finna þá til. Það sem ég vildi sagt hafa er að ég teldi verr af stað farið en heima setið ef þátttaka Alþingis í undirbúningi mála yrði kannski meira gervimennska en veruleiki. Samt finnst mér þetta vera ágæt ábending og ég tel að það sé rétt hjá hæstv. utanrrh. að forsn. Alþingis eigi að íhuga hvort þessi mál verði skoðuð og tengd einhvern veginn við starfsemi alþjóðasviðs þingsins. Ég tel að það sé skynsamleg ábending.

Varðandi svo það að Íslendingar hafi aðgang að þessum nefndum eins og hæstv. ráðherra rakti þá þekkir hann það í sjálfu sér miklu betur en ég að þannig er það. En ég hef þó orðið var við hjá allmörgum, m.a. íslenskum sérfræðingum sem hafa reynt að fylgjast með starfi þessara nefnda að þeim finnst hlutur vor rýr í því að fylgjast með starfi nefndanna. Það liggur auðvitað þannig að aðildarríkin að Evrópusambandinu hafa náttúrlega allan forgang, m.a. í málafylgju, tillögugerð og málflutningi, í þessum nefndum. Þegar fulltrúar þeirra allra hafa lokið máli sínu kemur að Noregi, Íslandi og Liechtenstein, nokkurn veginn í þessari röð. Reynsla þeirra er ekki sú að auðvelt sé fyrir þá að komast í gegn með þær ábendingar sem þeir eru með. Þetta er ég ekki að segja til að draga úr því að menn vinni þetta verk heldur er ég að undirstrika það að vandasamt er að vera fámenn þjóð með 250 þús. íbúa andspænis þessu risabatteríi sem Evrópusambandið er, skriffinnska er þar meiri en nokkurn tímann hefur þekkst í víðri veröld frá því að sögur hófust að því fróðir menn hafa sagt í þessum ræðustól, m.a. fyrrv. hæstv. utanrrh.

Ég stóð aðallega upp til að þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágætar undirtektir við mál mitt almennt. Ég tel þetta áhyggjuefni. Ég man að ég orðaði það þannig í umræðunni um Evrópska efnahagssvæðið að að þessu leytinu til væri skárra að vera í Evrópusambandinu en aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að þar sætu menn frumkvæðislausir við flæðilínuna og biðu. Í hinu tilvikinu hefðu menn að nafninu til frumkvæði að minnsta kosti. Með þessu er ég ekki að leggja til að menn gangi í Evrópusambandið heldur er ég að reyna með þessu að varpa ljósi á að staða okkar í hinu Evrópska efnahagssvæði er að mörgu leyti afar erfið að ekki sé meira sagt.