Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 13:35:35 (5023)

1997-04-04 13:35:35# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:35]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegur forseti. Í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið að undanförnu hefur verkalýðshreyfingin vissulega náð fram áfangasigrum, þrátt fyrir ný samþykkt lög um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem dregið var úr möguleikum verkalýðsfélaga til samstöðu við gerð samninga.

Verkalýðshreyfingin hefur sett sér þau markmið að ná sambærilegum kjörum fyrir sitt fólk og launafólk býr við í nágrannalöndum okkar. Flestir þeir samningar sem gerðir hafa verið eru til allt að þriggja ára og því er ljóst að það verður á brattann að sækja á komandi árum ef verkalýðshreyfingin á að ná fram markmiðum sínum.

Það skiptir því miklu máli hver efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar verður á komandi missirum, og hvaða áhrif þær skatta- og lagabreytingar sem ríkisstjórnin hefur boðað hafa á þróun helstu þjóðhagsstærða og afkomu ríkissjóðs.

Það verður að koma fram hvort þær ákvarðanir sem teknar verða í framhaldinu miði að því að bæta og jafna kjör launafólks.

Þá skiptir einnig miklu máli að fá fram með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að tryggja að lífeyrisþegar og atvinnulausir fái sambærilegar kjarabætur og gert er ráð fyrir í nýgerðum kjarasamningum, þar með talin sú tekjutrygging sem á að tryggja launafólki 70 þús. króna lágmarkslaun.

Skýr svör verða að liggja fyrir í þessum efnum því reynsla margra síðustu ára kennir okkur að forsendur kjarasamninga bresta oftar en ekki við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni, þar sem stöðugt hefur verið vegið að kjörum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.

Það er líka nauðsynlegt að fá fram skýr svör ríkisstjórnarinnar varðandi aðgerðir gegn allt of háum jaðarsköttum.

Alþýðubandalagið er þeirrar skoðunar að nota eigi tekjuskattskerfið til lífskjarajöfnunar. Þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt leiða ekki til jöfnunar lífskjara.

Það liggur fyrir að þeir sem koma best út úr aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum er barnlaust hátekjufólk. Hjá því fólki nema skattalækkanir jafnvel tugum þúsunda á meðan skattar meðaltekjufólks með börn lækka um örfáar þúsundir króna. Þá munu boðaðar breytingar á barnabótakerfinu ekki koma þessu fólki til góða.

Það er því full ástæða til þess að fá fram skýr og afdráttarlaus svör ráðherra, ekki hvað síst í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur tileinkað sér þau vinnubrögð að sækja að verkalýðshreyfingunni úr mörgum áttum samtímis, í atlögum sínum að skipulagi verkalýðshreyfingarinnar og réttindum launafólks.

Því komu fáum á óvart áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um lífeyrissjóði á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins sátu við samningaborð.

Þessi áform tengjast því að ríkisstjórnin stefnir að einkavæðingu ríkisbankanna. Það þjónar þeim hagsmunum að færa stóran hluta lífeyrissparnaðar vinnandi fólks til bankakerfisins.

Jafnframt er látið í veðri vaka að núverandi lífeyriskerfi sé vont þó það sé mat flestra sérfræðinga að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé með því besta sem þekkist í heiminum. Það er reynt að villa um fyrir fólki með gylliboðum, án þess að því sé gerð grein fyrir hvaða réttindi það fær með einkalífeyrissparnaði í samanburði við samtryggingakerfið, verði það veikt eða slasist snemma á starfsævinni eða njóti langrar ævi, það langrar að bankainnstæðan er þrotin. Hvað gerist þá?

Kjarasamningar eru stór þáttur í efnahagsmálum hverrar þjóðar. Stór hluti verkalýðshreyfingarinnar hefur nú gert samninga sem gilda fram yfir kjörtímabil núverandi ríkisstjórnar. Það er því eðlilegt að fólk velti fyrir sér þætti ríkisstjórnarinnar í nýgerðum samningum.

Það er ljóst að lækkun persónufrádráttar á samningstímanum gefur ríkissjóði ein og sér umtalsverðar tekjur á móti lækkun tekjuskattasprósentunnar. Þó hafa ráðherrar látið í veðri vaka að mæta verði mögulegum útgjaldaauka vegna kjarasamninga með niðurskurði.

Þetta veldur áhyggjum, ekki hvað síst vegna þess að ríkisstjórnin hefur hingað til skorið niður á þeim sviðum sem koma verst við þá sem búa við lökustu kjörin um leið og þjónustugjöld hvers konar hafa hækkað verulega í stjórnartíð hæstv. forsætisráðherra, eða um rúma 2 milljarða króna. Hér er í raun um hreina skattahækkun að ræða sem kemur illa niður á launafólki. Það hefur verið vegið að launafólki og lífeyrisþegum á öllum sviðum.

Ég vil því, virðulegur forseti, beina eftirfarandi spurningum til hæstv. forsætisráðherra:

1. Hvert er mat forsætisráðherra á áhrifum kjarasamninga og aðgerða í skattamálum á helstu þjóðhagsstærðir og á afkomu ríkissjóðs?

2. Mun ríkisstjórnin mæta mögulegum útgjaldaauka í tengslum við kjarasamninga með niðurskurði og/eða með hækkun þjónustugjalda?

3. Telur forsætisráðherra nýgerða kjarasamninga gefa tilefni til almennra verðlagsbreytinga umfram það sem gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga?

4. Er væntanlegt frumvarp um lífeyrissjóði í samræmi við þá yfirlýsingu sem forsætisráðherra gaf í tengslum við gerð kjarasamninga og í fullri sátt við verkalýðshreyfinguna?

5. Áformar ríkisstjórnin að leggja fram fleiri frumvörp til laga á þessu kjörtímabili sem varða starfsemi stéttarfélaga og starfskjör félagsmanna þeirra?

6. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja lífeyrisþegum og atvinnulausum sambærilegar kjarabætur og gert er ráð fyrir í nýgerðum kjarasamningum, þar með talin tekjutrygging þeirra sem hafa laun undir 70 þús. á mánuði? Hvernig og hvenær munu þær hækkanir koma til framkvæmda á samningstímanum?

7. Hvenær má ætla að jaðarskattanefnd ljúki störfum og skili frá sér tillögum?