Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 13:40:49 (5024)

1997-04-04 13:40:49# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:40]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Um fyrstu spurninguna um áhrif kjarasamninga og aðgerðir í skattamálum og helstu þjóðhagsstærðir er þetta að segja:

Það er ljóst að nýgerðir kjarasamningar og aðgerðir í skattamálum sem ríkisstjórnin hefur kynnt munu leiða til verulegrar kaupmáttaraukningar almennings á næstu árum. Á næstu þremur árum mun kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna aukast um 12% eða um allt að 4% á ári. Í þessu felst enn fremur að kaupmáttur heimilanna mun aukast um rúmlega 20% á árunum 1995--1999. Slíka kaupmáttaraukningu höfum við ekki áður upplifað. Þetta er miklu meiri kaupmáttaraukning en gengur og gerist í okkar helstu nágrannalöndum.

Um aðrar þjóðhagsstærðir er það að segja að samkvæmt nýjustu spá Þjóðhagsstofnunar mun hagvöxtur á næstu þremur árum verða að jafnaði um 3,5% á ári. Verðbólgan verður á bilinu 2,5--3%. Atvinnuleysi heldur áfram að minnka og ætti að vera 3--3,5% í lok samningstímabilsins. Helstu hættumerkin eru hins vegar viðskiptahalli sem mun fara vaxandi, annars vegar vegna mikilla stóriðjuframkvæmda sem ekki er áhyggjuefni en hins vegar mun aukinn kaupmáttur og þar með mikil neysla valda auknum viðskiptahalla sem er meira áhyggjuefni og er nauðsynlegt að hafa góðar gætur í þeim efnum.

Þá er spurt hver séu heildaráhrif þeirra samninga sem gerðir hafa verið og aðgerðir í skattamálum á afkomu ríkissjóð.

Enn er ólokið samningsgerð við fjölmörg stéttarfélög opinberra starfsmanna og því ekki unnt að meta áhrif kjarasamninga á ríkissjóð til fulls á þessari stundu. Hins vegar er ljóst að skattalækkun mun leiða til lakari afkomu en verið hefur. Heildaráhrif skattalækkunar eru metin á rúmlega 5 milljarða kr. tekjutap. Á móti vega nokkur atriði eins og afnám skattafsláttar vegna hlutafjárkaupa og sú ákvörðun Alþingis við afgreiðslu síðustu fjárlaga að halda afsláttarliðum í tekjuskattskerfinu óbreyttum á þessu ári. Þá er einnig gert ráð fyrir að tekjur af fjármagnstekjuskatti gangi að einhverju leyti til að mæta þessum skattalækkunum. Þótt ekki liggi fyrir nákvæmt mat á afkomuhorfur ríkissjóðs á næstu árum er ljóst að hún verður lakari en efni stóðu til þrátt fyrir aukin umsvif í efnahagslífinu sem einnig munu koma þar á móti.

Þá var spurt hvort ríkisstjórnin muni mæta mögulegum útgjaldaauka í tengslum við kjarasamninga með niðurskurði og/eða að auka álögur á almenning, t.d. með hækkun þjónustugjalda.

Kjarasamningarnir sem slíkir gefa ekki tilefni til slíkra aðgerða. Hins vegar mun ríkisstjórnin eftir sem áður huga vandlega að þróun efnahagsmála með það að leiðarljósi að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Það hlýtur að vera keppikefli allra að viðhalda hér stöðugleika og tryggja að sá kaupmáttur sem kjarasamningarnir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiða til skili sér til almennings. Eins og ég nefndi áðan er ástæða til að hafa góðar gætur á vaxandi viðskiptahalla því hann felur í sér hættu á aukinni erlendri skuldasöfnun sem grefur undan stöðugleika í efnahagslífinu. Í því efni er mikilvægast að huga að leiðum til að auka þjóðhagslegan sparnað í landinu.

Þá er spurt hvort forsrh. telji nýgerða kjarasamninga gefa tilefni til almennra verðlagsbreytinga umfram það sem gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga.

Samkvæmt þeim forsendum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið sér um verðlagsþróun í kjölfar kjarasamninga og fulltrúar landssambanda Alþýðusambandsins hafa kynnt ríkisstjórninni er gert ráð fyrir að verðbólga geti verið um 2,5% á ári á samningstímanum. Þetta er um 0,5% meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þessar forsendur eru ef til vill í lægri kantinum. Þannig hefur Þjóðhagsstofnun áætlað að verðbólgan verði að jafnaði á tímabilinu um 2,5--3%. Samkvæmt þessu er ekki ástæða til að ætla að verðbólga muni fara úr böndum vegna kjarasamninga eða aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Þá er spurt hvort væntanlegt frv. um lífeyrissjóði sé í samræmi við þá yfirlýsingu sem forsrh. gaf í tengslum við kjarasamninga og í fullri sátt við verkalýðshreyfinguna.

Ég tel svo vera. Við höfum gert ákveðnar breytingar á fyrri frumvarpsdrögum til að koma til móts við hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar og höfum kynnt þær breytingar á fundi í dag og ég vænti þess að um þetta mál geti orðið mjög góð sátt.

Þá er spurt um hvort ríkisstjórnin áformi að leggja fram fleiri frv. til laga á þessu kjörtímabili sem varða starfsemi stéttarfélaga og starfskjör félagsmanna þeirra.

Svarið er að á þessari stundu eru engin áform uppi um slíkt.

Spurt er hvernig ríkisstjórnin ætli að tryggja lífeyrisþegum og atvinnulausum sambærilegar kjarabætur og gert er ráð fyrir í nýgerðum kjarasamningum. Þar með talin tekjutrygging þeirra sem hafa laun undir 70 þús. kr. á mánuði. Hvenær og hvernig þær hækkanir muni koma til framkvæmda á samningstímanum.

[13:45]

Eins og ég hef áður lýst yfir munu lífeyrisþegar fá sömu launahækkanir og almennt hefur verið samið um í kjarasamningum. Enn fremur munu hækkanir væntanlega koma til framkvæmda á svipuðum tíma og hjá öðrum, þ.e. verða afturvirkar frá og með hinum almenna gildistíma samninga.

Nú er unnið að undirbúningi þessa máls og ég geri ráð fyrir því að hægt sé að kynna mjög fljótlega þá niðurstöðu sem þar er uppi. Ég minni einnig á að lífeyrisþegar fengu strax um síðustu áramót 2% hækkun á bótum sem var í reynd upp í væntanlegar launahækkanir.

Þá er rétt að minna á að 70 þús. kr. tryggingin kostaði að mati Alþýðusambandsins 0,6% launahækkun.

Þá er spurt hvenær megi ætla að jaðarskattanefnd ljúki störfum og skili frá sér tillögum. Jaðarskattanefnd hefur fjallað um ýmsar leiðir til að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts á bótakerfið. Á síðustu vikum og mánuðum fyrir gerð kjarasamninga beindist umræðan í nefndinni einkum að ákveðnum hugmyndum um lækkun á almenna tekjuskattshlutfallinu, sameiningu beggja barnabótakerfanna og afnámi tekjutengingar í vaxtabótakerfinu. Þær hugmyndir um lækkun tekjuskatts og breytingar á barnabótum sem ríkisstjórnin hefur nýlega kynnt er í öllum meginatriðum í anda þeirra hugmynda sem einkum hafa verið ræddar í nefninni á undanförnum vikum og mánuðum. Þótt ekki beri að skoða þetta sem tillögur nefndarinnar er óhætt að segja að þær endurspegli hugmyndir margra nefndarmanna. Ég geri fastlega ráð fyrir að nefndin ljúki störfum fljótlega og leggi um leið fram skilagrein um athuganir sínar og umræður og sú skilagrein verði gerð opinber og kynnt í þinginu.