Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 13:48:36 (5026)

1997-04-04 13:48:36# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þau óleystu mál sem við blasa nú eru annars vegar hækkun greiðslna til atvinnulausra, öryrkja og ellilífeyrisþega og hins vegar lífeyrissjóðafrv. Við vitum að tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga hækkuðu um 4,5 milljarða milli áranna 1995 og 1996. Ríkisstjórnin endaði fjáralagagerð sína með því að frysta persónuafslátt og fjárhæðir bótagreiðslna en sú aðgerð skilar hátt í milljarð í ríkissjóð að óbreyttu. Við höfum talið að ríkisstjórnin muni nýta þessa peninga til að liðka fyrir kjarasamningum auk þess sem ljóst er að kjarasamningarnir skila viðbótartekjum í ríkissjóð. Ég spyr forsrh. hvað áætlað sé að viðbótartekjur ríkisins verði miklar.

Það er mikilvægt að ríkisstjórnin á nú inneign til að nota til að bæta hag þeirra sem minnst hafa --- aldraðra og öryrkja á tryggingabótum. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir orðrétt: ,,Áréttuð er sú yfirlýsing forsrh. að bætur í tryggingakerfinu munu hækka um þá meðalhækkun launa sem verður í almennum kjarasamningum að mati ríkisstjórnarinnar.`` Þrátt fyrir þetta loðna orðalag hafa nýgerðir kjarasamningar --- samkomulag um 70 þús. kr. lágmarkslaun og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar gert það að verkum að þeir sem lifa af bótum Tryggingastofnunar ríkisins eru nú með miklar væntingar og reikna með sömu kjörum sér til handa. Það gera sér ekki allir ljóst að ríkisstjórnin er búin að klippa á tengingu bóta við lágmarkslaun í landinu.

Fréttir af væntanlegu lífeyrissjóðafrv. hafa valdið usla í verkalýðshreyfingunni enda er um enn eina gerræðisaðgerðina að ræða gagnvart launþegum. Forsrh. boðar breytingu í dag en lífeyrissjóðirnir vilja eiga möguleika á að ávaxta viðbótarprósentuna eins og frjálsir sjóðir. Ég varpa fram þeirri spurningu hvort þetta kalli á breytingu á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin opnar á það í frv. að atvinnurekendur geti ráðið lífeyrissjóðsaðild starfsmanna við ráðningu. Er það kannski næsta skref að setja lög sem gefa atvinnurekanda rétt til að ráða í hvaða stéttarfélag starfsmaður fer?