Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 13:51:06 (5027)

1997-04-04 13:51:06# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það kallar á skýringu hæstv. forsrh. hvers vegna ríkisstjórnin vill ekki gera breytingar á skattkerfinu í samræmi við hugmyndir ASÍ sem gagnast betur láglauna- og millitekjufólki með því að draga úr áformum um skattalækkanir hjá hátekjuhópunum en auka að sama skapi skattalækkun þeirra verr settu. En þetta er eftir öðru hjá ríkisstjórninni. Fjármagnstekjuskatturinn er sniðinn að því að fjármagnseigendur greiði sem minnst en hann verður fyrst og fremst borinn uppi af almennum sparifjáreigendum og nú að skattalækkanir skili sér best til hálaunahópanna í þjóðfélaginu --- bankastjóranna og forstjóranna.

Það er líka ljóst að ríkið fær umtalsverðar tekjur eftir kjarasamningana og skattbreytingarnar frá því sem verið hefur. Við búum við þannig skattkerfi að ríkið greiðir niður launin fyrir atvinnureksturinn til að fólkið eigi fyrir framfærslunni og ríkið verður vissulega að gera það áfram, m.a. með háum skattfrelsismörkum meðan launin eru undir hungurmörkum. En nú fer fátæka fólkið sem var áður með tekjur undir skattleysismörkum að greiða tekjuskatt vegna launahækkananna sem á samningstímanum á að koma þeim í 70 þús. kr. sem eru nú og verða ekkert annað en hungurtaxtar árið 2000 og sem a.m.k. enn, meðan launin eru svo lág, réttlæta hækkun á skattleysismörkum. En af hógværri kjarabót láglaunahópanna ætlar skattkrumla ríkisvaldsins nú að klípa einhverja þúsundkalla til að geta gert betur við hálaunahópana, skjólstæðinga ríkisstjórnarinnar, í skattalækkunum í stað þess m.a. að hækka skattleysismörkin um 7 þús. kr. eins og var hugmynd ASÍ. Svona vinnubrögð í skattbreytingum ásamt því að hlunnfara aldraða, öryrkja og atvinnulausa með því að láta bætur þeirra ekki fylgja 70 þús. kr. lágmarkslaunum getur haft áhrif á úrslit allsherjaratkvæðagreiðslna nú um miðjan mánuðinn. Ríkisstjórnin getur enn séð að sér og því skora ég á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að bótaþegar verði ekki hlunnfarnir og fái það sama og láglaunahóparnir og að skattútfærsla ASÍ verði ofan á, sem mun kosta ríkissjóð svipað eða litlu meira en nú er áformað.