Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 13:55:48 (5029)

1997-04-04 13:55:48# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:55]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þeir kjarasamningar sem gerðir voru fyrir tveimur árum hafa reynst vera þeir farsælustu í sögu lýðveldisins. Og eins og allt stefnir í dag þá virðist svo að aftur sé að takast mikil kjarasátt í þjóðfélaginu. Sátt sem gæti, ef vel til tekst, leitt til þess að áframhald verði á þessu mikla gæfuferli sem við erum að fara í gegnum, þ.e. ,,Ísland farsældar frón`` sé að verða nokkuð stöðugt, og geti orðið slíkt tímabil síðustu árin á þessari öld svipað og fyrsti áratugurinn, mjög mikið farsældartímabil. (Gripið fram í: Hver er hin hrímhvíta móðir?) En ástæða er til að minnast þess að mjög oft höfum við haft tækifæri til þess, Íslendingar, að ganga vel í efnahagsmálum en þá hefur það yfirleitt verið þannig að ríkisfjármálin og mistök í þeim hafa leitt til þess að heildarstefnan í efnahagsmálum hefur öll farið út og suður, hin góðu áform aðila vinnumarkaðarins, forustu launþega og annarra, hafa farið út og suður og kaupmátturinn hefur farið niður en ekki upp.

Það eru fjölmörg dæmi þess, og ég held að ástæða sé til þess núna að rifja það upp vegna þess að það er staðreynd að sterk bein þarf til að þola góða daga. Nú reynir mjög á það á næstu missirum að ríkisfjármálin verði í miklu lagi, það verði passað upp á að þau fari nú ekki út og suður eins og svo oft áður. Menn fari ekki að leika þann gamla leik að gera allt fyrir alla, alls staðar og alltaf. Það er upphafið að ógæfunni, var löngum, og mun verða það áfram ef við förum þá leið. Því skulum við fara varlega í ríkisfjármálunum því þannig getur Alþingi stuðlað að því að kjarabótin nái hámarki og við þurfum þess.