Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 13:58:02 (5030)

1997-04-04 13:58:02# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:58]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka umræðuna um kjarasamninga sem hér fer fram. Ég fagna því að samningar eru að takast hver á fætur öðrum milli samningsaðila og að verkföllum er forðað í bili. Vandinn verður sá að halda áfram áunnum réttindum, halda stöðugleika og koma í veg fyrir að þeir sem hærra eru launaðir troði áfram á baki þeirra sem lakast eru settir.

Ég tel að brýnt sé að upplýst verði um áhrif kjarasamninga á fjárlög íslenska ríkisins hið fyrsta. Einnig hver áhrif áform um stóriðjuframkvæmdir hafa á fjárlögin.

Herra forseti. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig unnt er að veita aðhald þannig að launabil haldist en aukist ekki. Því hef ég ásamt hv. þm. Svanfríði Jónasdóttir og Ágústi Einarssyni lagt fram frv. um að öllum fyrirtækjum á Íslandi sé skylt að auglýsa í samráði við stéttarfélög lægsta greitt tímakaup innan fyrirtækja og lægstu mánaðarlaun sem fyrirtækið greiðir. Einnig að birtar verði upplýsingar um bætur til örorku- og bótaþega á þeim stofnunum sem með þau mál fara. Ég tel brýnt að fram komi að margir bótaþegar hafa innan við 12 þús. kr. á mánuði úr að spila eftir að stofnanirnar hafa tekið þá fjármuni sem með þeim fylgja í tryggingabætur. Þetta er ekkert síður sá hlutur sem við eigum að tala um en þeir kjarasamningar sem hafa náðst og þá er ég auðvitað að horfa til þess að viðmiðunartölurnar til þeirra sem eru bótaþegar verði eðlilegar.