Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 14:02:16 (5032)

1997-04-04 14:02:16# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:02]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Vegna þessa að hér bar á góma stefnu ríkisstjórnarinnar og samninganefndar ríkisins í kjarasamningunum er rétt að fram komi og sé áréttað enn á ný að það er eitt af mikilvægustu atriðum í þeirri stefnu að draga úr og vinna gegn launamisrétti kynjanna. Um þetta var ítarlega rætt hér á hinu háa Alþingi ekki alls fyrir löngu í umræðum af svipuðum toga og þeim sem hér fara fram.

Þá vil ég í öðru lagi segja frá því að tekjuskattslækkunin og hækkun útgjalda ríkisins vegna kjarasamninga og skyldra atriða mun valda því á næstu árum að líta verður sérstaklega til útgjalda ríkisins og stilla þeim verulega í hóf eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson benti réttilega á.

Í þriðja lagi vil ég ítreka það sem auðvitað skiptir langmestu máli í því sem fram hefur komið í dag, en það eru orð forsrh. um að ráðstöfunartekjur fólks á Íslandi, þ.e. tekjur eftir skatta, hafi um langan tíma ekki vaxið eins og nú og að þær muni á næstu árum vaxa helmingi meira heldur en í nágranna- og viðskiptalöndum okkar. Þetta er vegna þess að hér hefur ríkt stöðugleiki, skilningur stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði og vaxandi skilningur á því að við þurfum að styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar gagnvart þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það er þessi stjórnarstefna núverandi ríkisstjórnar sem er að skila sér í þessum verkum, þessum gjörðum og þessum vaxandi kaupmætti íslensks launafólks.