Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 14:04:32 (5033)

1997-04-04 14:04:32# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:04]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það er alveg sérstök ástæða til að fagna þeim áföngum og þeirri kjarasátt sem er nú að nást á vinnumarkaði og tímalengd þeirra samninga sem í farvatninu eru. Við höfum einstakt tækifæri núna þegar þessum samningum lýkur til þess að stjórna efnahagsmálum okkar á þann veg að stöðugleiki ríki og hagvöxtur fari vaxandi en það er undirstaða þess að reka megi ríkissjóð eðlilega. Ég ber þá von í brjósti að við náum árangri í því efni. Ég vildi taka það fram við þessar aðstæður að að sjálfsögðu mun fjárln. kalla eftir þeim upplýsingum sem tiltækilegar eru frá fjmrn. um áhrif þessara samninga á afkomu ríkissjóðs á þessu ári og horfurnar á næstu árum. Hún hefur þegar gert það í rauninni og mun fara yfir þau mál innan tíðar. Það er útlit fyrir það, ef við getum stýrt málum farsællega, að hagvöxtur og kaupmáttur fari vaxandi næstu árin og það er auðvitað algjör grundvöllur fyrir afkomu ríkissjóðs og grundvöllur fyrir því að við getum rekið velferðarkerfi okkar með traustum og skikkanlegum hætti.