Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 15:50:50 (5046)

1997-04-04 15:50:50# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:50]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands. Það er á þskj. 813. Flm. auk mín eru hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, Pétur H. Blöndal og Einar K. Guðfinnsson.

Frv. þetta er í tveimur greinum. Það er örstutt og hljóðar 1. gr. svo, með leyfi forseta:

,,Slíta skal Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands. Um meðferð eigna og skulda félagsins við slitin fer samkvæmt ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 68/1994.``

2. gr. hljóðar svo:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 68/1994, um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.``

Lögin nr. 68/1994 um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands eru að mörgu leyti mjög sérstök og athyglisvert að athuga þær umræður sem urðu um þau á Alþingi og framsögu þáv. hæstv. heilbr.- trmrh. Guðmundar Árna Stefánssonar fyrir því máli. Það var flutt sem svokallað EES-mál og þótti rétt og skylt vegna þeirra breytinga sem þá voru að breyta Brunabótafélaginu.

Ég held að rétt sé, í upphafi máls míns, að ég fari aðeins yfir sögu þessa í örfáum orðum. Brunabótafélag Íslands var stofnað með lögum 1. janúar 1917 og gegndi lengi vel ákaflega þýðingarmiklu hlutverki fyrir sveitarfélögin í landinu sem þess óskuðu en það voru flest sveitarfélög utan Reykjavíkur. Nokkrir sveitahreppar voru ekki með og síðustu árin ekki Hafnarfjörður og nokkur önnur bæjarfélög. En það var alltaf rekið sem gagnkvæmt tryggingafélag en 1989 fer það í samstarf við Samvinnutryggingar og myndar Vátryggingafélag Íslands og vátryggingastofn þess annað en brunabætur fara þá inn með sérstöku leyfi trmrh. En það varð svo úr eftir töluverðar vangaveltur að félaginu var breytt í þetta eignarhaldsfélag og er því rétt hér og nú, herra forseti, að rifja það upp. Ég vil meina að það hafi ekki verið neitt leyndarmál að árin áður en þetta frv. var flutt þá var þetta mál mjög til pólitískrar umræðu --- hvað ætti að gera við þetta félag. Hæstv. fjmrh. þáv. og núv. fer ekkert leynt með skoðun sína þá að rétt hafi verið að reyna að gá hvort þetta félag tilheyrði ekki ríkinu og yrði ríkiseign. Niðurstaða lögfræðinga var sú að svo væri alls ekki og ríkið ætti ekkert í þessu félagi.

Síðan er það ekkert leyndarmál heldur, herra forseti, að menn lögðu sig mjög fram um að finna fyrir því lögfræðileg rök að þetta félag væri eign sveitarfélaganna. En niðurstaðan var sú að svo væri alls ekki. Sveitarfélögin ættu þetta félag alls ekki. Það væri alveg ljóst að félagið væri í eigu þeirra aðila sem tryggðu hjá því, eins og eðli gagnkvæmra tryggingafélaga væri. Það var því hin skýlausa niðurstaða þeirra sem um málið fjölluðu að félagið væri í eigu tryggingartakanna. Enda kemur það mjög skýrt í ljós þegar lögin eru skoðuð að þá fer það ekki milli mála hvað þau segja og kom líka skýrt fram í umræðunni um þetta frv. þegar það var flutt. Það kom mjög skýrt fram hjá flm., þáv. hæstv. ráðherra, og öðrum líka sem fjölluðu um málið, sérstaklega hjá núv. iðn.- og viðskrh., Finni Ingólfssyni. En þessi lög um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands eru þannig að í 3. gr. laganna er getið um til hvers það sé --- það sé til þess að vera í tryggingarstarfsemi en í 5. gr. er nákvæmlega sagt til um það hver eigi félagið. Þar segir í fyrstu upptalningu að þetta sé sameign þeirra sem brunatryggðu fasteignir. Í öðru lagi þeir sem áttu tryggingarnar sem gengu til Vátryggingafélagsins 1989 og í þriðja lagi verður sameignarfélagið, sem samanstendur af fulltrúum frá sveitarfélögunum, sameignaraðilar um leið og þessir kunna að falla frá. Þessi einkennilega uppsetning er svona. Það er viðurkennt, það er skýrt hver á félagið --- það eru tryggingartakarnir. Þeir skulu samt ekkert með það hafa heldur gerist fulltrúaráð sveitarfélaganna sjálfkrafa erfingjar allra hlutanna. Þeir erfa það sjálfkrafa. Ef einhver deyr þá erfir klúbburinn hann, ef eitthvert félag verður gjaldþrota þá erfir klúbburinn það líka. Það er alveg skýrt. Þannig að stefnt er að því einhvern tímann í framtíðinni að þetta fulltrúaráð sveitarfélaganna muni erfa og eignast það í fyllingu tímans.

Í lögunum er líka gert ráð fyrir að til slita félagsins geti komið. Það er í 16. gr. en þar er nákvæmlega sagt til um hvernig beri þá að haga sér. Það ber þá að skipta þeim hluta, sem sameignarsjóðurinn er búinn að erfa, upp milli sveitarfélaganna í hlutfalli við það hvernig þeir tryggðu við slit félagsins á síðasta árinu, þ.e. 15. október 1992 til 14. október 1993. Það er sem sagt alveg skýrt hverjir eiga og hvernig með skuli fara komi til slita. Það fer ekkert á milli mála í neinum texta laganna. Enda er það ljóst að þegar þáv. hæstv. heilbrrh., Guðmundur Árni Stefánsson mælti, fyrir frv. á Alþingi, og kom það skýrt fram í umræðunum sem þar voru, að honum er það fullkomlega ljóst hver á þetta félag. Og sá sem ræddi mest um þetta þá var núv. hæstv. iðnrh. Finnur Ingólfsson. Honum er mjög vel ljóst hverjir eiga þetta félag í reynd.

Hér er sem sagt um dálítið sérstætt mál að ræða. Það eru allir sem viðurkenna það, bæði í textanum svo og í umræðunni á Alþingi, hver eigi þetta félag en menn kjósa að fara þá leið að láta eigendurna ekki hafa neitt um þetta að segja heldur kjósa þessa leið að smám saman í fyllingu tímans komi þetta sameignarfélag til með að erfa þetta.

Í skýrslu einkavæðingarnefndar er mjög fjallað um allt þetta mál, Brunabótafélagið, og Árni Tómasson og Tryggvi Gunnarsson skrifuðu um það stutta skýrslu og við létum hana fylgja með sem fskj. Ég vil sérstaklega vekja athygli manna, herra forseti, á 4. lið því það er aðalatriði málsins. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af því hversu óvirkt og óvisst hugsanlegt tilkall félagsmanna BÍ er til eigna BÍ verður að telja líkur á að löggjafinn geti án þess að það fari í bága við ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um ráðstöfun á eignum BÍ í þágu þeirra markmiða, sem lög um BÍ hafa verið byggð á, enda séu uppfyllt ýmis almenn skilyrði slíkrar lagasetningar.``

[16:00]

Svo mörg voru þau orð.

Þessir frómu menn segja það beint út að þarna sé vitandi vits farið á svig við 67. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. greinina um eignarréttinn, vitandi vits með tilliti til þess að þetta sé laustengt milli eigendanna og félagsins og að félaginu sé ætlað í framtíðinni að starfa í þágu þeirra markmiða sem það var stofnað til og það vann svo vel að í marga, marga áratugi. Það réttlætir það að þeirra dómi.

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þetta ágæta félag, og er ekkert nema gott um það að segja, ákvað nú fyrir skömmu að hætta starfsemi sinni á þeim vettvangi sem það hefur verið allt frá upphafi, þ.e. frá 1917 og ákvað að selja hlut sinn í Vátryggingafélagi Íslands, selja það á einu bretti Landsbanka Íslands og hætta þar með þessari starfsemi sem þeir hafa stundað allt frá upphafi.

Þeim er að sjálfsögðu frjálst að gera þetta. Það efast enginn um að stjórn þessa félags hafi verið heimilt að gera þetta og eftir því sem ég best veit, herra forseti, þá er fulltrúaráð Brunabótafélagsins á fundi nú í dag. Annaðhvort hefur hann hafist eða mun hefjast nú dag. Mér er sagt það a.m.k. og er þess að vænta að sjálfsögðu að fulltrúaráðið muni staðfesta áður gerðan kaupgerning. Það er því alveg ljóst að þetta sem helgaði það að fara á svig við eignarréttinn er ekki lengur til staðar. Þeir eru hættir störfum, eru núna bara eignarhaldsfélag og því eru, herra forseti, engin einustu rök til annars en að félaginu sé slitið og það afhent sannarlega réttum eigendum eins og lögin skilgreina svo skilmerkilega, eins og öll umræðan, þá frv. um lögin var flutt í Alþingi, gerir svo skilmerkilega.

Það verður að segja það, herra forseti, að rökin í umræðunum fyrir þessu frv. á sínum tíma fyrir eignarhaldsfélaginu voru að hluta til þau að mönnum virðist þá ekki hafa verið ljóst hvaða verðmæti voru í þessu félagi. Og menn notuðu það mjög mikið í umræðunni að það kæmi svo lítið í hvers hlut að það tæki því ekki að fara að skipta þessu. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið ef mönnum hefur ekki verið ljóst hvaða upphæðir þarna voru, en það er ljóst á álitsgerðinni sem ég las upp áðan að það hefur verið mjög vanmetið því að í álitsgerðinni, sem er frá 1995, eru menn að gera ráð fyrir því að þarna séu þetta um 500 millj. þannig að núna á örskömmum tíma hefur þetta mat mjög breyst því að það liggur fyrir og er vitað að söluverð Brunabótafélagsins til Landsbankans var 3,4 milljarðar, þ.e. 3.400 millj. Í ljósi þessa má því kannski segja að Alþingi hafi verið nokkur vorkunn á sínum tíma því þegar lögin voru sett var mönnum alls ekki ljóst um hversu mikla peninga þeir voru að fjalla.

Samkvæmt upplýsingum Vátryggingaeftirlitsins tryggðu 66 þúsund nafnnúmer hjá Brunabótafélagi Íslands og samkvæmt laganna hljóðan eiga menn hlut í þessu félagi í hlutfalli við iðgjöld þeirra eins og segir hér í lögunum. Nú hefur mönnum gengið ákaflega illa að finna út meðaltalið af hlutunum og er sorglegt til þess að vita hversu illa þessi reikningur hefur gengið. Þetta eru 3.400 millj. og að deila 66 þús. upp í það ætti fæstum að vera ofviða en þó hefur það gengið alveg sérstaklega illa. Talan 6 kr. hefur verið nefnd í fjölmiðlum. Talan 30--40 kr. hefur líka verið nefnd í fjölmiðlum. Neðst komst hv. þm. Sighvatur Björgvinsson í Dagblaðinu nú fyrir nokkrum dögum en fékk þá útkomuna 4--5 kr. Þetta er svona með verri útkomum í reikningi sem ég minnist að menn hafi lent í, að deila þessu saman. En einhverjir munu klára að gera þetta og niðurstaðan er nú rúmar 51 þús. kr. miðað við heildarupphæðina. Sé það rétt að þarna séu skuldir upp á nokkruð hundruð millj. í lífeyrissjóði og mér þykir eðlilegt að nettótalan sem um er að ræða sé nú eitthvað nær svona 3.000 millj., og deilt er með 66 þús. í það þá kemur eitthvað í kringum 45 þús. út úr því dæmi hjá flestum þannig að hér er um umtalsverða fjármuni að ræða, herra forseti. Að vísu liggur fyrir að meðaltalið er bara meðaltal. Eignarhlutanum skal úthlutað samkvæmt iðgjöldum og sannarlega geta þau verið mjög smá upp í það að vera mjög stór þannig að það getur verið frá nokkrum einseyringum upp í nokkrar milljónir. En meðaltalið er þá ekki minna en 45 þús. kr. og venjulegu fólki, þ.e. því fólki landsbyggðarinnar sem tryggði húsin sín, sem tryggði bílana sína og innbúið sitt, munar um það meðaltal, 45 þús., 30 þús., 50 þús., 100 þús., 200 þús. Þetta eru allt peningar og á tölvuöld er mjög auðvelt að koma þessu til skila. Öll þessi nafnnúmer liggja fyrir nákvæmlega hjá Vátryggingaeftirlitinu.

Það er einnig vitað að frá því að lögin voru sett og til dagsins í dag hafa um 12% af þessu gengið til sameignarfélagsins eða 8.000 kennitölur sem sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins, svo að ég fari með þetta rétt, á. En 52% eru í eigu einstaklinga eða 34 þúsund kennitölur og 36% eru þá í eigu sveitarfélaga, alls konar félagasamtaka o.s.frv., þ.e. 24 þúsund kennitölur. Sveitarfélögin eru sem sagt búin að eignast 12% í gegnum þetta sérstaka arfafyrirkomulag eins og lögin segja fyrir um. Það er líka vitað, herra forseti, að sveitarfélögin voru að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands um 12% af heildartryggingunum þannig að saman koma sveitarfélögin til með að eiga svona 22--24% af Brunabótafélagi Íslands. Það hefur komið fram í umræðum margra að hér væri ekki gott mál á ferðinni vegna þess að verið er að taka eignir af sveitarfélögunum. Þetta er alls ekki rétt því að með því að slíta félaginu er einmitt verið að ,,realísera`` þessar eignir og sveitarfélögin munar svo sannarlega um það.

Það hefur einnig komið fram, herra forseti, að mönnum þykir óþarfi að gera þetta þar sem Brunabótafélagið hafi áfram verkefni. Menn segja og hafa sagt í nafni þess að sannarlega gætu þeir keypt sér tryggingar. En ég segi aftur á móti: Sérhver hinna raunverulegu eigenda getur náttúrlega líka keypt sér tryggingar. Það þarf enga hjálp til þess.

Í öðru lagi segir í lögunum að tilgangurinn sé að lána peninga og einhverjir vilja meina að gott sé fyrir sveitarfélögin að þeim séu lánaðir peningar. En ég segi, herra forseti, að Lánasjóður sveitarfélaga er í gangi. Hann lánar heilmikla peninga með mjög góðum vöxtum. Það er líka vitað að sveitarfélögin hafa á undanförnum árum mjög farið út á hinn almenna lánamarkað og fengið þar mikið lán á mjög góðum kjörum. Staðan er þannig nú að það er offramboð á lánum. Sveitarfélögin vantar engin lán. Þau geta fengið öll þau lán sem þau vilja, enda eru þau með ríkisábyrgð. Ríkið ber ábyrgð á þessu öllu saman. Allir eru tilbúnir að lána þeim. Þetta er ekkert vandamál.

Í þriðja lagi er getið um það í lögunum að stuðla eigi að að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði og taka þátt í að veita styrki til slíkrar starfsemi. Þetta er nú allt gott og blessað en ég verð að segja það, herra forseti, að ég treysti því að menntakerfið í heild muni sjá um þetta eins og annað, að það þurfi ekki endilega að vera sérstakt félag til þess að sjá um styrki til þess að læra tryggingafræði.

Eins og gengur vildu margir, eins og ég nefndi í upphafi, eiga þetta félag. Sveitarfélögin vildu eiga það, ríkið vildi eiga það og ég get alveg skilið hæstv. fjmrh., ríkiskassanum veitir aldrei af því að fá til sín peninga o.s.frv. Hitt er alveg skýrt og liggur fyrir í öllum lögfræðilegum álitum, hverjir eigendurnir eru og það ber á hverjum tíma að virða eignarréttinn því að ef við virðum ekki eignarréttinn í hverju sem við gerum, þá er hætt við því að við villumst annars staðar og eiginlega alveg víst að menn verða kolvilltir þegar í stað. Það er mjög mjög brýnt að eignarrétturinn sé virtur því að allt okkar hagkerfi byggist einmitt á því að við virðum eignarréttinn.

Þegar þetta ágæta félag hefur hætt störfum er því eðlilegt að það hætti, verði slitið í sundur og hinum réttu eigendum skilað sínum hlut sem getur verið mismunandi mikill, svona einhverjir tugir þúsunda til hins venjulega borgara sem byggir þetta land. þ.e. eigendum húsa í dreifbýlinu annarra en í Reykjavík og Hafnarfirði. Það eru eigendur húsa í Garðabænum, í Kópavogi, á Reykjanesi, á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Suðurlandi og Austurlandi og þetta fólk munar um það. Það er engin ástæða til annars en að afhenda þeim sína peninga, engin ástæða til annars og tæknilega engin vandkvæði, alls engin vandkvæði á því.

Mér hefur, herra forseti, þótt viðbrögð sumra nokkuð kynleg við þessu frv. okkar. Menn hafa talið það algjöran óþarfa að gera þetta. Verst fannst mér frammistaðan vera hjá formanni jafnaðarmannafélags Íslands --- eða heitir það ekki það? Jafnaðarmannaflokkur Íslands líklega --- því hann vildi meina að þetta væri svo lítið í hlut hvers og eins, 4--5 kr., að það jafnaðist á við fuglafóður. Fuglafóður! Fuglafóðurskenningin. Þegar almenningur á að fá sinn hlut, þá er það eins og að gefa fuglunum. Nei, herra forseti. Það er alls ekki þannig. Það er nefnilega mjög mikilsvert að láta fólk fá sína peninga og það er ekki verið að gefa fuglunum þó að allt gott sé um fuglafóðrun að segja. (GÁS: Viltu ekki að gera það sama við kvótann, hv. þm.?) Það er allt hið besta við það að afhenda réttum aðilum það sem þeir eiga sannanlega samkvæmt lögum þegar fyrir liggur vitnisburður frá réttum aðilum það. Allt er til á skrá, það er til á nafnnúmerum o.s.frv. og líti aðrir á þetta sem fyrirmynd, þá er að taka það til fyrirmyndar ef menn treysta sér til. Hitt liggur fyrir að félagið, hið merka félag sem starfaði vel og lengi að þessum hlutum, hefur hætt störfum. Allt gott er um það að segja. Sveitarfélögin fá sinn hlut sem er í kringum 1/4 af þessari eign eða tæplega það, um 700 millj. Einstaklingarnir og fyrirtækin í landinu fá sinn hlut sem eru þá rúmar 2.000 millj. Marga mun muna um það. Það er hið besta mál. Sumir líta þannig á og ég hef heyrt menn segja að það sé sama og að henda peningunum út um gluggann að láta fólkið hafa sína eigin peninga. Þetta er skelfilegt lífsviðhorf því að allar upplýsingar benda einmitt til hins gagnstæða. Það eru einstaklingarnir í samfélaginu sem alltaf eru hinir ábyrgustu. Féð er alltaf best komið í höndum þeirra sem eiga það. Hinu opinbera, ríkinu og sveitarfélögunum, hefur í gegnum tíðina gengið verr að halda á sínu. Einstaklingarnir hafa alltaf verið hinir ábyrgu þannig að með því að afhenda einstaklingunum peningana sína er ekki verið að henda þeim út um gluggann, heldur einmitt hið gagnstæða, það er verið að tryggja að þeir séu í góðum höndum.

Þetta er nú það sem ég vildi í upphafi sagt hafa, herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.