Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 16:18:34 (5050)

1997-04-04 16:18:34# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:18]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Fyrst þetta: Það er einkar athyglisvert að flutningsmenn að þessu frv. sem hér er til umræðu skuli hefja kynningu málsins á því að fara í andsvör hvor við annan og sýnir það nú kannski samstöðuna í þeirra herbúðum þegar kemur að kjarna máls.

Frv. sem hér er til umræðu er þess eðlis að auðvitað ber að taka það alvarlega. Það hefur að sönnu tilvísanir til margra annarra þátta og lýtur að eignarrétti sem er sannarlega grunnþáttur okkar stjórnskipunar og samfélagslegra viðhorfa þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafa ráð einstaklinga í hendi sér.

Á hinn bóginn get ég ekki leynt því að mér finnst ákveðinn stráksskapur og fljótræði búa hér að baki. Ég vil vekja á því sérstaka athygli að það er einmitt í dag, að ég veit best, sem fulltrúaráð það sem er æðsta stjórn eignarhaldsfélagsins kemur saman til þess að taka ákvarðanir og fjalla um nýjasta nýtt í þessum efnum, þ.e. kauptilboð Landsbanka Íslands á þessum eignarhlut eignarhaldsfélagsins í VÍS. Maður skyldi því ætla að ráðamenn hefðu a.m.k. beðið eftir því að heyra viðhorf fulltrúa eigenda félagsins til þeirra nýju atburða áður en menn réðust fram með frv. af þessum toga því að niðurstöður um þetta liggja ekki fyrir þannig að það er heldur fljótt að gefa sér að hlutirnir hafi orðið á þann veg sem fjölmiðlar hafa greint frá og hér hefur verið um rætt í þessum ræðustóli um þessi viðskipti á banka- og tryggingamarkaði. Auðvitað læðist því að manni sá grunur að hér sé svona ákveðinn stráksskapur á ferðinni og ákveðin stríðni.

En um leið er augljóslega um það að ræða að flutningsmenn eru í ákveðnu vinsældarkapphlaupi og eru að skapa væntingar meðal almennings um að einstaklingar, viðskiptamenn Brunabótafélags Íslands til lengri og skemmri tíma eigi hugsanlega úti í bæ einhverja tugi þúsunda króna á hverja fjölskyldu eins og hv. þm. orðaði það. Betur ef satt væri og ég held að nauðsynlegt sé í þessu samhengi að menn fari eilítið yfir það hvernig eignarhaldið skiptist með hliðsjón af ákvæðum laganna.

Þannig er að þegar lífeyrisskuldbindingar þessa eignarhaldsfélags eru frádregnar þá er álit manna að eign félagsins sé einhvers staðar í kringum 3 milljarðar kr. Þar af er talið að sameignarsjóðurinn eigi um 12%, einstaklingar og tryggjendur til 1989 og þeir sem höfðu samninga hjá sveitarfélögunum um það bil 53% og síðan fyrirtæki og sveitarfélög önnur 35%. Ef þetta er skoðað með hliðsjón af þessum tölum, er hægt að gefa sér það að einstaklingar ættu 53%, þ.e. á bilinu 3--3.500 kr. hver tryggjandi. Sveitarfélögin fengju 20% og fyrirtæki önnur, þar á meðal Aðalverktakar og Áburðarverksmiðjan sem stórir tryggjendur, um það bil 27% þannig að einhvers staðar er þarna misskilningur á ferðinni ef menn eru annars vegar að tala um tugi þúsunda til einstaklinga sem hafa verið tryggjendur og aftur í einum, tveimur eða þremur þúsundköllum. En látum það liggja á milli hluta í bili, virðulegi forseti.

Það er hins vegar alveg nauðsynlegt af því að hv. 1. flm. gat þess með réttu vissulega að um það voru áhöld og nokkrar umræður á árunum 1992, 1993 og 1994 hvernig ætti að höndla þetta tiltekna tryggingafélag, Brunabótafélag Íslands. Það þurfti að gera sökum ákvæða í EES-samningi og það sama gildi þá raunar um Brunatryggingar hér í Reykjavík. Og það er ekkert launungarmál sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom raunar inn á að fjmrh. sótti mjög fast að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi sem yrði þá alfarið í eigu ríkissjóðs. En ég segi það bara hreint út að það er sem ég sjái hv. þm. koma hér í ræðustól og leggja til að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson sendi þessa 3 milljarða í hlutafélagi í eigu ríkissjóðs, sem ætti að fara að selja, heim í hérað til tryggingartakanna. Og ég bíð þess þá að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson geri slíkt hið sama þegar kemur að því að seldir eru hlutir og fyrirtæki allra landsmanna sem menn eru sannarlega í beinum viðskiptum við og þá á ég við Póst- og símamálastofnun. Hlýtur maður ekki að ganga að því sem vísu að það sama gildi til að mynda um þá stofnun þegar að því kemur, því að um það er ekki að deila lengur, að þaðan verði seldir stórir hlutar fyrirtækisins ef það ekki allt? Og ég spyr hv. þm. beint um það: Gefur ekki auga leið að viðskiptamenn þeirrar stofnunar, sem að langstærstum hluta til eru einstaklingar í þessu samfélagi, eigi sambærilegan rétt þegar kemur að því að þetta stórfyrirtæki sem er upp á tugi milljarða kr. verður selt áhugaaðilum á næstu mánuðum eða missirum? Ég hlýt að óska eftir hreinum og klárum svörum við því og einnig hinu hvort og hvers vegna á því standi þá að hv. þm. og hans fylgismenn í þessum efnum hafa ekki tekið undir viðhorf og hugmyndir í þá veru að ákveðin verðmæti hérlendis sem sannanlega óumdeilt eru eign þjóðarinnar, þeirra einstaklinga sem byggja þetta land og þá á ég við fiskinn í sjónum, verði send hlutabréf eða eignaviðurkenning upp á sinn skerf í þeim efnum. Nei, þá kveður við allt annan tón þó að ekki sé um það deilt og löggjöfin sé um það algerlega skýr að fiskimiðin og þau verðmæti sem þar er að finna séu eign þjóðarinnar. Nei, þá gilda allt í einu allt önnur lögmál. Þá eiga sérstakir umboðsmann að fara með þau réttindi og nýta að vild samkvæmt tilteknum reglum og þá kemur það fólkinu ekkert lengur við. Hér rekur sig hvað á annars horn þegar þessi mál eru skoðuð.

Ég segi líka af því að þetta mál er þannig sértækt að uppi voru álitamál um það hver ætti þetta félag í raun. Niðurstaðan varð sú að setja það í frv. sem síðan var samþykkt, ef ég man rétt, mótatkvæðalaust í þinginu. Bæði þáv. stjórnarmeirihluti og stjórnarandstæðingar samþykktu það einum rómi. Ég man ekki eftir neinni hjáróma rödd í þeim umræðum öllum né við þá afgreiðslu. En menn vildu gera hlutina eins og þeir komu fyrir. Með öðrum orðum voru það tryggingartakar og þó undir forræði sveitarfélaganna sem höfðu eignarhald á þessu félagi og síðan var það fulltrúaráð skipað af sveitarfélögunum sem hafði stjórn þess með höndum. Það var ákaflega eðlilegt framhald af hinni löngu sögu Brunabótafélags Íslands. Sagan er nefnilega sú, eins og hér hefur verið drepið á, að sveitarfélögin hafa alla tíð verið miðpunktur og afl þeirra hluta sem gera þurfti á þeim bæ hjá Brunabótafélagi Íslands. Þau skipuðu þetta fulltrúaráð, höfðu stjórn félagsins með höndum og það sem meira var, þau voru varðandi skyldutrygginguna, brunatrygginguna, milliliður félagsins annars vegar og tryggingartakanna hins vegar. Það var um skyldutryggingu að ræða og sveitarfélögin voru þar milliliðurinn og sá sem var óhjákvæmilegt annað en fara í gegnum. Sveitarfélögin höfðu alla tíð þetta forræði á sinni hendi þannig að það er ekkert nýtt sem menn fundu upp hér í þessum lagatexta árið 1994. Það er langur vegur frá því. Brunabótafélag Íslands og sveitarfélögin hafa verið eitt í hugum manna þegar kemur að brunavörnum og brunamálum og ég drep líka á það í þessu samhengi sem er nauðsynlegt að halda til haga, að Brunabótafélag Íslands eins og sem betur fer kannski mörg önnur vátryggingafélög, Brunabótafélag Íslands þó einkum og sér í lagi taldi það hlutverk sitt að tryggja og styðja brunavarnir í þeim sveitarfélögum sem þarna áttu hlut að máli, og það voru lengi vel nánast öll sveitarfélög allt í kringum landið. En þegar ákveðið frelsi var gefið í þessum efnum árið 1982 eða 1983 ef ég man rétt, þá hættu nokkur þar viðskiptum í kjölfar útboða, þar á meðal minn heimabær, Hafnarfjörður. En þarna voru slík bönd á milli að engum datt annað í hug en að þar væri nánast um sama hlutinn að ræða. Það þýðir því ekkert að koma og segja að sveitarfélögin komi að þessu máli bara eins og einhver maður úti í bæ vegna þess að þau voru í viðskiptum á einhverjum tilteknum tímapunkti, 1988, 1992. Sagan segir okkur allt annað. Þau eru rótföst í þessu félagi og eðlilega því að þau höfðu forsjá þess með höndum áfram þrátt fyrir þá formbreytingu sem menn urðu að láta yfir sig ganga eða framkvæma í kjölfar EES þannig að þarna einfalda menn auðvitað ekkert málin með því að slíta allt úr samhengi. Sagan segir þetta allt saman.

Þetta er ein meginorsök þess að það kom aldrei til álita eins og fjmrh. vildi á þeim tíma, að ríkið tæki þetta yfir, gerði þetta bara upptækt og tæki yfir og skellti andvirðinu í ríkissjóð. Það kom ekki til álita. Menn urðu sammála um að fara þessa leið, þáv. ríkisstjórn og þáv. Alþingi, ef ég man rétt segi ég á nýjan leik, virðulegi forseti, mótatkvæðalaust þannig að hér verða menn að gæta að þessum kringumstæðum.

[16:30]

Þetta vildi ég segja um þennan þátt alveg sérstaklega og orsakir þess að engin tilviljun réði því að menn fóru þessa leið á sínum tíma. Ég vil nefna líka í þessu samhengi að systurfyrirtæki Brunabótafélagsins, sem voru Brunatryggingar hér í Reykjavík, var einnig til ákvörðunar og umræðu á hinu háa Alþingi þetta sama vor 1994 því það gilti það sama um það fyrirtæki og Brunabótafélag Íslands varðandi skyldutrygginguna, að það þurfti að skera á ákveðin bönd vegna EES-ákvæða.

Hefur nokkrum manni dottið í hug fram að þessum tíma að Brunatryggingar í Reykjavík mundu skila þeim fjármunum, því eigin fé sem þær höfðu yfir að ráða til allra tryggingartaka í Reykjavík? (PHB: Jú, jú.) Ég hef ekki heyrt það. Það getur vel verið að hv. þm. Pétri Blöndal hafi dottið það í hug, honum dettur svo margt í hug. En ég hef ekki heyrt það fyrr. Annars veit ég ekki um hagi þess félags núna, hvar eignarhaldið á því liggur eða hvar það fé sem þar var til staðar er varðveitt og ávaxtað. En ég hef ekki heyrt þessa hugmynd. Ég vænti þess þá að hv. þm. þm., ef einhverja peninga er að finna þar enn þá, komi með sambærilega tillögu um það og hér um ræðir. En það auðvitað dettur engum í hug.

Þessu má sumpart, þó ekki að öllu leyti, líkja við það að þeir sem hafa verið í viðskiptum við tiltekna aðila um langt árabil og breytingar verða á eignarhaldi og formi, telji sig eiga tilkall til eignarréttarins. Hér er að vísu um gagnkvæmt tryggingafélag að ræða. Það eru fleiri tryggingafélög sem eru þó einkarekin. Er ekki ósköp eðlilegt og sjálfsagt að menn yfirfæri þetta yfir á fleiri svið? Eða er það kannski bara þegar kemur að hinni samfélagslegu eign, ríkissjóði og sveitarfélögunum sem menn vilja ástunda þessa vinsældarpólitík að senda tékka heim til fólks? Skipta viðskipti við einkaaðila engu máli í þessu samhengi þar sem um gagnkvæmar tryggingar er að ræða? Er það bara þannig að þá leyfast mönnum allir skapaðir hlutir? Ég átta mig á því að þarna er skurðpunktur á milli og geri greinarmun á. En siðferðilega skulu menn nálgast þetta mál á ekki ósvipaðan hátti. Það held ég að sé grunnþáttur þessarar umræðu. Og enn á ný bendi ég á að Póstur og sími, fyrirtækið hér handan við götuna, hefur eigið fé upp á milljarða króna og aftur milljarða. Eiga símnotendur á Íslandi von á því að þeir hv. þm. sem hér um ræðir komi með tillögu í kjölfar tillögu fjmrh. um sölu á því fyrirtæki um að símnotendur fái tékka sendan heim fyrir viðskiptum síðustu 50--100 árin? Ég spyr. Og þá vænti ég þess að það sama gildi um kvótann og þá einkanlega að þeir hv. þm. Vestf., Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson, geri gangskör að því og hafi um það frumkvæði og forustu að skila peningunum til þjóðarinnar, til einstaklinganna sem landið byggja, í formi uppreiknaðs verðmætis fisksins í sjónum.

Ég hins vegar neita því ekki, virðulegi forseti, og ætla að segja það eins og það er að það kom mér mjög á óvart og ég undraðist það dálítið að yfirstjórn eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands skyldi fara fram eins og sem hún gerði nú ekki fyrir margt löngu, fyrir nokkrum vikum þegar hún seldi Landsbankanum þennan hlut. Ég gerði það raunar að umtalsefni í utandagskrárumræðu um þau mál undir öðrum formerkjum og hefði talið eðlilegra að menn hefðu nálgast þennan gjörning öðruvísi, haft þá ákveðna framtíðarsýn fyrir þetta fyrirtæki á sama tíma. Ég sakna þess dálítið að forsvarsmenn þessa félags skyldu ekki á sama tíma gera glögga grein fyrir því hvernig þeir hygðust síðan ávaxta þá fjármuni sem þeir fengu til félagsins í kjölfar þessarar sölu. Það gengur ekki í viðskiptum af þessum toga að einstaklingar eða forsvarsmenn félags sem er með eigin fé upp á 3,4 eða 3,6 milljarða kr., svari bara út úr um það og það vomi og vaki yfir að hugsanlega geti hringekjan endað þannig að þessir fjármunir verði síðan notaðir aftur til þess að kaupa hlut inn um gluggann í Landsbanka Íslands og verði síðan orðnir bankaeigendur en þá aftur á tryggingamarkaði þótt óbeint sé þannig að vegir þessara viðskipta eru órannsakanlegir.

Ég er svo sem enginn sérstakur aðdáandi viðskipta af þeim toga sem þar birtast okkur, þar sem örfáir einstakingar véluðu um þessi mál á lokuðum fundi um milljarða kr. og milljarða aftur. Það gerðist þannig að Landsbanki Íslands, sem skilaði hagnaði upp á 250 millj. kr. á síðasta ári eftir skatta, gat með einu pennastriki keypt félag upp á 3,4 milljarða þótt það ætti að borga á þremur árum. Þetta eru að sönnu viðskipti sem ég fæ engan botn í, en heyrði jafnframt um leið á sérfræðingum að Landsbanki Íslands hefði stórstyrkt sig með þessum spámannlegu viðskiptum. Þeir höfðu 200 millj. í höndunum til þess að greiða upp í 3,4 milljarða, en Landsbankinn stórstyrkti sig í kjölfarið. Þetta eru viðskipti sem ég kann ekki. En það getur vel verið að hv. 16. þm. Reykv. kunni þau betur en ég og vafalaust gerir hann okkur grein fyrir því á eftir.

Meginatriðið, virðulegi forseti, er að ég vil fara með gát í þessum efnum, nóg er nú samt. Ég vil í fyrsta lagi heyra viðhorf sveitarfélaganna, fulltrúa þeirra í fulltrúaráði þessa eignarhaldsfélags um þessi viðskipti sem eru fyrirliggjandi. Það þarf að taka afstöðu einnig til þess hvað skuli gera við þá fjármuni sem til félagsins renna. En ég leggst eindregið gegn því og ég jafna þessu frv. við að verið sé að gera eignaupptöku á eignum sveitarfélaganna í landinu. Þetta er hrein og klár ódulbúin árás á sveitarfélögin. Það er ekkert öðruvísi. Menn geta klætt þetta í hvaða búning sem þeir vilja. Þessir hv. þingmenn hafa kosið að gera það þannig að þarna eigi að senda tryggingartökum tugþúsundum saman tékka í pósti með þökk fyrir viðskiptin í gegnum árin og áratugina, en það er auðvitað ekki þannig. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að verið er að ráðast beint og óbeint að sveitarfélögunum, sem hafa farið með forsjá þessara mála, komi til þess að frv. verði afgreitt sem ég á þó ekki nokkra von á.

Mitt mat er það og mín skoðun er sú að sveitarfélögin og fulltrúar þeirra í Brunabótafélagi Íslands eigi að hugsa sinn gang mjög alvarlega í þessum efnum og ræða til hlítar, ekki með neinum asa eða látum, hvernig þeir sjái fyrir sér framtíð þessa eignarhaldsfélags og hlutverk þess. Ég sé t.d. fyrir mér að þetta eignarhaldsfélag og Brunabótafélagið gangi fram fyrir skjöldu miklum mun rösklegar en verið hefur í því að styrkja og styðja brunavarnir á landinu öllu í gegnum sveitarfélögin með forvarnastarfi, með bættum tækjabúnaði og ýmsu öðru til þess að koma í veg fyrir þá skelfilegu vá sem eldsvoðar eru. Það væri auðvitað þarft verk fyrir þetta eignarhaldsfélag ef það á annað borð er í vandræðum með sjálft sig og finnur sér ekki verðug verkefni. Það væri miklu verðugra verkefni að minni hyggju heldur en nokkru sinni það að renna aftur inn í það kompaní sem þeir voru rétt áðan að selja. Það finnst mér hráskinnaleikur sem er mér ekki að skapi. Verkefnin eru víðfeðm og mörg. Umfram allt gefum sveitarfélögunum og fulltrúm þeirra grið og tækifæri og tíma til þess að ráða sínum ráðum og komast að skynsamlegri niðurstöðu. Þetta frv. hjálpar ekkert í þeim efnum.