Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 16:45:31 (5054)

1997-04-04 16:45:31# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:45]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því núna að þessu frv. hefur verið dreift 1. apríl. Það kannski skýrir margt. (EOK: Fyrir 1. apríl.) Var það fyrir 1. apríl? Já. Þá bið ég hv. þm. afsökunar á þessum mismælum.

Mér finnst eins og hv. þm. hafi dregið nokkuð í land og það er að sönnu ágætt hjá honum því eins og lögin segja fyrir um fer það eftir ákveðnum, tilteknum reglum komi til slita á félaginu og það er fulltrúaráðið, sem skipað er af sveitarstjórnum í landinu, sem eitt getur tekið ákvarðanir um slíkt og það þarf raunar 3/4 hluta fulltrúaráðsmanna til þess að slík ákvörðun gangi fram. Það er því nákvæmlega fyrirskrifað hvernig það ákvörðunarferli er.

Ég skil ekki nákvæmlega hvað það er í raun, þrátt fyrir allítarlega framsöguræðu hv. þm., sem knýr þingmanninn til þess að brjóta upp þessi ákvæði. Treystir hann ekki sveitarfélögunum í landinu til þess að hafa forræði þessara mála á sinni hendi? Nú veit ég að hann hefur sýslað með sveitarstjórnarmál og þekkir býsna vel til þeirra. Hefur hann einhverja vantrú á sveitarstjórnarmönnum til þess að höndla með þessa eign fólksins í landinu? Telur hann bráðnauðsynlegt og æskilegt að Alþingi grípi þar inn í og taki völdin af sveitarfélögunum í landinu? Ég tel ekki nokkra ástæðu til þess.

Ég ber fullt traust til sveitarstjórnarmanna og sveitarfélaganna að fara með mál eins og best verður á kosið í þessum efnum, og vek athygli á því, af því að í þessum sal eru miklir peningamenn, að það þykir ekki vera býsna góð ávöxtun til að mynda hjá sveitarstjórnarmönnum í þessu fulltrúaráði að hafa komið 500 millj. kr. eign, eins og hún var metin 1992, upp í 3,4 milljarða 1997. Það þykir bara býsna gott hjá mörgum held ég. Ég ber því fullt traust til sveitarstjórnarmanna þvert á það sem flutningsmenn hér fara fram með.