Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 16:51:57 (5057)

1997-04-04 16:51:57# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega málið sem hv. þm. sagði: Tiltekin félög hafa sérstöðu, þ.e. félög sem starfa sem gagnkvæm tryggingafélög. Þau hafa þá sérstöðu að eiga samkvæmt orðanna hljóðan, samkvæmt þeim reglum sem gilda, sérstaklega í útlöndum --- það eru reynar mjög fátæklegar reglur sem gilda um þetta hér á landi --- að endurgreiða of hátt iðgjald og þau eiga að leggja á viðbótariðgjald ef iðgjald ekki dugar. Þetta er eðli og eiginleiki gagnkvæmra tryggingafélaga. Það er allt öðruvísi hjá öllum öðrum tryggingafélögum, svo maður tali ekki um Póst og síma. Það er bara eitthvað allt annað. Það er ekki til neitt sem heitir gagnkvæmt símgjald, að það eigi að endurgreiða símgjaldið ef reksturinn er ódýr. Það er ekki til. Póstur og sími kemur því þessu máli ekkert við. Það sem um er að ræða er að fólk sem hafði borgað of hátt iðgjald í fjölda ára átti innstæðu hjá Brunabótafélaginu þegar það var lagt niður og eignarhaldsfélagið stofnað. Það átti lögvarða innstæðu, eign, vegna þess að það hafði borgað of hátt iðgjald í áratugi. Það eru, held ég, mjög fáir sem geta réttlætt það að þessi eign sé ekki til staðar.