Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 17:36:58 (5063)

1997-04-04 17:36:58# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:36]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka samúðaróskirnar. En þetta varð nú niðurstaðan og um það er ekkert að segja. Ég féllst á þá niðurstöðu sem fólst í frv. sem þáv. hæstv. heilbr.- og trmrh. flutti og mælti með ágætum fyrir á sinni tíð. Ég held samt sem áður að það mikilvægasta í þessu máli eins og það liggur fyrir núna sé að reyna með öllum tiltækum ráðum að standa þannig að verki að bæði Landsbankinn, sem er ríkiseign og við berum heilmikla ábyrgð á, og Eignarshaldsfélag Brunabótafélagsins og þeir sem fara þar með mál, verði sterkari eftir en áður. Ég tel að með því að Landsbankinn kaupi þennan hlut Eignarhaldsfélagsins í VÍS muni það, eins og ég sagði áðan, styrkja Landsbankann og ég tel að með því að eignarhaldsfélagið hafi áfram með þessa eign að gera muni það styrkja það félag en þó aðallega mun það styrkja sveitarfélögin eins og stjórn Brunabótafélagsins hefur lagt línur þessa dagana.

Þeir hafa, veit ég, lagt þær línur að standa þannig að málum að félagið muni beint og óbeint reyna, ekki styrkja sveitarfélögin í þeim skilningi að veita þeim beina styrki, heldur gera það með lánum og með öðrum aðgerðum, jafnvel með því að ganga enn lengra en gert hefur verið, með því að efla brunavarnir í landinu sem skiptir auðvitað mjög miklu máli. Brunavarnir eru heilmikill kostnaður sem sveitarfélögin hafa með að gera og það er mjög mikils virði að mínu mati að vel takist þar til.