Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 17:42:46 (5065)

1997-04-04 17:42:46# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:42]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Vinir sveitarfélaga og vinir ríkissjóðs gátu ekki sölsað þessar eignir hinna tryggðu, þ.e. einstaklinga og fyrirtæki, undir skjólstæðinga sína, sveitarfélögin og ríkissjóð. Reyndu þeir þó eins og þeir gátu eins og hér hefur komið fram. Það sem þessir vinir ríkissjóðs og sveitarfélaganna gerðu þá þegar það brást að sölsa eignina undir sig, var að búa til vél sem er þannig að sveitarfélögin erfa fyrirtækin og einstaklingana í tímans rás. Það var lausnin sem þeir fundu í þessu máli eins og ég benti á.

Eins og ég benti á í fyrri ræðu minni set ég stórt spurningarmerki við það, og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði sömuleiðis, hvort þessi lagasetning 1994 stóðst eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég bíð eftir því að einhver láti á það reyna, einhver erfingi sem hefur tapað erfð sinni til sveitarfélaganna með þessum hætti, hvort það hafi verið í samræmi við stjórnarskrána að láta sveitarfélögin erfa eignina með þessum hætti.