Beiðnir um skýrslu

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:04:53 (5071)

1997-04-14 15:04:53# 121. lþ. 101.91 fundur 284#B beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:04]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Á dagskrá fundar í dag er frv. hæstv. menntmrh. um rammalöggjöf um háskóla. Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að spyrjast fyrir um skýrslu um kennslu, nám og rannsóknir á háskólastigi sem allur þingflokkur jafnaðarmanna bað um 14. nóvember sl. Þessari skýrslubeiðni hefði samkvæmt þingsköpum átt að svara innan 10 vikna, þ.e. í janúar eða febrúar ef menn væru velviljaðir gagnvart jólafríi, en það eru alla vega komnir tveir mánuðir fram yfir þann tíma. Það mikilvægt að okkar mati, herra forseti, að þessi skýrsla hefði legið fyrir því að hún er nauðsynlegt innlegg í þá umræðu sem hér á eftir að fara fram.

Mér finnst, herra forseti, það vera býsna skrýtin vinnubrögð þegar við sjáum hér hvert stjfrv. á fætur öðru til 1. umr. alla vikuna í og ekki er hirt um að svara fyrirspurnum eða skýrslubeiðnum okkar stjórnarandstæðinga sem hefði verið nauðsynlegt innlegg inn í þá umræðu sem hér fer fram. Í skýrslubeiðninni var óskað eftir svörum við einum 23 spurningum. Þetta er umfangsmikil skýrsla, ég er ekkert að draga úr því, en það hefði verið mjög æskilegt að búið hefði verið að svara henni eða alla vega búið að upplýsa hvar vinna við hana stæði. Í skýrslubeiðninni var óskað eftir upplýsingum um þróun háskólastigsins, samanburð við útlönd, kostnaðarrannsóknir og margt fleira sem ekki er hægt að fara í, allt málefni sem hefðu komið að mjög miklu gagni hér í umræðunni.

Ég óska þess vegna eftir því, herra forseti, að forseti upplýsi hvernig þessi skýrsla standi því að augljóst er að liðinn er sá frestur sem þingsköp gera ráð fyrir að sé veittur til að svara skýrslu hér á hinu háa Alþingi.