Úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:22:17 (5084)

1997-04-14 15:22:17# 121. lþ. 101.2 fundur 277#B úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.# (óundirbúin fsp.), LB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:22]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegur forseti. Í síðustu viku kvað samkeppnisráð upp úrskurð sinn vegna fyrirhugaðs samruna Flugleiða og Flugfélags Norðurlands hf. Í úrskurðinum voru sett skilyrði fyrir samruna félaganna. Markmiðin með skilyrðunum eru þau að reyna að tryggja stjórnunarlegt sjálfstæði Flugfélags Íslands og sjá til þess að yfirburðaaðstaða Flugleiðasamsteypunnar verði ekki nýtt til þess að raska samkeppni. Það segir sig sjálft að nauðsynlegt er að setja félagi sem hefur 90% markaðshlutdeild ströng skilyrði ef tryggja á heilbrigða samkeppni á markaði. Grunntónninn í úrskurði ráðsins er sá að tryggja að jafnræði ríki meðal keppinauta enda hefur sagan kennt okkur að heilbrigð samkeppni er forsenda eðlilegrar verðmyndunar og góðrar þjónustu og því sé hag neytenda best borgið með heilbrigðri samkeppni. Það vakti því óhjákvæmilega verulega athygli að tveir af hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar skyldu með yfirlýsingu þar um draga í efa réttmæti úrskurðarins. Reyndar komu yfirlýsingar hæstv. samgrh. ekki á óvart því hann hefur tekið að sér mjög sérstakt hlutverk í samkeppnisumræðunni hér á landi. Hins vegar vöktu yfirlýsingar hæstv. forsrh. mun meiri athygli þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði það á tilfinningunni að samkeppnisráð hefði gengið nokkuð fast fram í þessu máli án þess að það þjónaði hagsmunum neytenda. Það er alvarlegt mál þegar hæstv. forsrh. kemur fram fyrir alþjóð og lýsir yfir að úrskurður lögmæts stjórnvalds sé ekki í samræmi við markmið laga sem því er ætlað að starfa eftir. Þetta verður sýnu alvarlegra í því ljósi að forsrh. kemur ekki fram sem fagráðherra í þessu máli heldur sem oddviti ríkisstjórnarinnar. Að mínu viti eru yfirlýsingar hans til þess eins fallnar að rýra trú manna og traust á lögmætu stjórnvaldi, sem eitt út af fyrir sig er mjög alvarlegt mál.

Það vakna því óhjákvæmilega spurningar í framhaldi af yfirlýsingum hæstv. ráðherra um það hvort og þá hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við umræddum úrskurði. Því vil ég beina eftirtöldum spurningum til hæstv. starfandi forsrh.:

1. Telur ríkisstjórnin að samkeppnisráð sé ekki hæft til að fara með það vald sem því er falið í samkeppnislögum?

2. Telur ríkisstjórnin úrskurðinn í andstöðu við lög?

3. Hefur ríkisstjórnin hugsað sér að breyta samkeppnislögum vegna þessa úrskurðar?