Úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:26:12 (5086)

1997-04-14 15:26:12# 121. lþ. 101.2 fundur 277#B úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.# (óundirbúin fsp.), LB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:26]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. starfandi forsrh. fyrir svörin. Hæstv. ráðherra sagði að lögin væru sennilega of þröng. Ég vænti þess að hann hafi átt við að þau væru of rúm, þannig að það þyrfti að þrengja þau. Alla vega skildi ég svarið þannig. Hitt er það að þessi úrskurður er ekki sá fyrsti sem kveðinn er upp þar sem ströng skilyrði eru sett. Við getum rifjað upp úrskurð sem féll t.d. í málefnum Olíufélagsins. Þar þótti ekki ástæða til að koma fram af slíku offorsi eins og í þessu máli. Maður hlýtur að spyrja sig hvort hæstv. ráðherrar gangi erinda sumra fyrirtækja en ekki annarra því viðbrögð vegna þessa úrskurðar eru mjög merkileg. Einkanlega í ljósi þess að vitaskuld er samkeppnisráð fyrst og síðast að gæta hagsmuna neytenda. Þess vegna hlýtur að vekja furðu þegar meintir talsmenn frelsisins og neytenda koma fram eins og raun ber vitni.

Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherra að þessi úrskurður virðist vera ríkisstjórninni að minnsta kosti tilefni til að endurskoða lögin. Það eitt út af fyrir sig segir mikið um þessa ríkisstjórn.