Úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:27:39 (5087)

1997-04-14 15:27:39# 121. lþ. 101.2 fundur 277#B úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði áðan var að ekkert frekar þetta mál en önnur slík hljóti að leiða til þess að menn líti á lögin. Það er ekkert óeðlilegt við það eftir að samkeppnisráð hefur starfað hér um nokkurra ára skeið en það tók við af verðlagseftirliti. Samkeppnisráð og hugmyndin á bak við það og starfsemi ráðsins hefur sýnt okkur og sannað hve mikilvægt það er að horfa til þessara mála með samkeppni og hagsmuni neytenda í huga. Það viljum við gera. En það breytir ekki því að eðlilegt er eftir að ráðið hefur starfað um nokkurra ára skeið að litið sé til laganna og kannað hvort þau séu of rúm eða of þröng eftir atvikum. Að sjálfsögðu eru það hagsmunir neytenda sem menn hljóta að horfa á. Í þessu sambandi er einmitt deilt um hvort niðurstaðan sé til hagsbóta fyrir neytendur því svo kann að fara að flugvélar t.d. verði minni en ella ef þessi úrskurður stendur, svo dæmi sé tekið. Menn verða þá að hafa álit á því hvort það sé til hagsbóta fyrir neytendur eða ekki þótt ekkert felist í þessum orðum hvort þessi úrskurður sé rangur eða réttur. (Gripið fram í: Eru minni vélar ekki óöruggari?)