Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:34:41 (5093)

1997-04-14 15:34:41# 121. lþ. 101.2 fundur 279#B réttarstaða fólks í óvígðri sambúð# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:34]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í umfjöllun síðustu vikna um dánarbætur skipverja hjá Landhelgisgæslunni er lést við björgun nú nýverið hefur nokkuð verið rætt um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð, en skipverji þessi var í óvígðri sambúð með eftirlifandi barnsmóður sinni. Þetta mál hefur vakið fólk til umhugsunar um almenna réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð, ekki aðeins um réttarstöðu eftirlifandi maka við andlát heldur ekki síður önnur atriði eins og skattamál, réttarstöðu við skilnað o.s.frv. Þar sem engin almenn lög eru til um óvígða sambúð er reglan yfirleitt sú að þau gagnkvæmu réttindi og skyldur sem fólk hlýtur við giftingu gilda ekki um fólk sem velur sér þann kost að búa saman án vígslu. Þannig má segja að fólk velji sér form sambúðar m.a. út frá því hvaða rétt og hvaða skyldur það undirgengst hverju sinni. Hitt er jafnljóst að fjöldi fólks vill frekar búa í óvígðri sambúð en vígðri. Ástæður þessa geta verið af trúarlegum eða siðferðilegum toga en einnig getur fólk einfaldlega talið eðlilegt að stíga varlega til jarðar þegar það hefur búskap og búa saman í nokkur ár áður en gengið er í hjónaband. Margir virðast jafnvel standa í þeirri trú að sambúð í tvö eða þrjú ár, eins og oft heyrist, veiti sama rétt og hjúskapur. Réttarstaðan er þannig óljós og þá vakna spurningar um það hvort ekki væri eðlilegt að setja rammalöggjöf um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð þó ekki væri nema til að skýra stöðuna. Ég spyr því hæstv. dómsmrh. hvort hann hafi íhugað að setja slíka rammalöggjöf, hvort það hafi komið til umræðu í dómsmrn. og hvort hann telji ástæðu til að skoða það mál á næstunni.