Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:36:38 (5094)

1997-04-14 15:36:38# 121. lþ. 101.2 fundur 279#B réttarstaða fólks í óvígðri sambúð# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:36]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur ekki verið til sérstakrar skoðunar í dómsmrn. að setja löggjöf um óvígða sambúð. Hitt er annað mál að það er álitaefni hvort á slíkri löggjöf sé þörf. Vissulega er mjög mikilvægt að fólk viti almennt hver réttindi þess eru og skyldur. En það er líka alveg ljóst að fólk tekur ákvarðanir í þessum efnum út frá ríkjandi aðstæðum og hlýtur að gera sér grein fyrir því almennt hvaða réttaráhrif hjúskapur hefur, hvort sem til hans er stofnað í kirkju eða með borgaralegum hætti og hvaða réttindi og skyldur fylgja óvígðri sambúð. Ég geri ráð fyrir því að fólk velji sambúðarform með tilliti til þeirra réttindi og þeirra skyldna sem uppi eru í hvoru tilviki fyrir sig. En vel má vera að ástæða sé til að gera þessi mál skýrari og gleggri með almennri löggjöf en spurningar um það hafa ekki verið til umfjöllunar enn sem komið er á vettvangi ráðuneytisins.