Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 16:49:56 (5108)

1997-04-14 16:49:56# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[16:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þakklátur hv. þm. fyrir að rifja upp snjallar ræður mínar frá síðasta kjörtímabili. Ég lagði áherslu á að lögunum um LÍN yrði breytt og það gengur eftir. Ég lagði áherslu á að endurgreiðsluhlutfallinu yrði breytt og það er gert. Í stað 7% af tekjum, greiða námsmenn hér eftir 4,75%. Námsmenn sem áður höfðu greitt 7% af tekjum sínum, þ.e. ef þeir hefðu haft t.d. 2 millj. í árstekjur, hefðu orðið að greiða 140 þús. en greiða eftir breytinguna 95 þús. (SvG: Það hefur enginn borgað 7% ...) Þeir koma til með að gera það ef ykkur tækist nú að stoppa þetta frv. Ef ykkur tækist að stoppa þetta frv. þá hefðu þeir orðið að greiða 7%. (SvG: Þetta er blekking.) (Gripið fram í.) Þetta er ekki blekking. Hv. þm. er með útúrsnúninga.

Í þriðja lagi lögðum við áherslu á samtímagreiðslur. Þær eru í höfn að samþykktu þessu frv. Námsmenn fá greiðslur jafnharðan og fá þær meira að segja í bankaútibúi sínu og það er miklu betra fyrir þá heldur en að þurfa að sækja þær til LÍN. Vextir og lántökukostnaður er veittur námsmönnum sem styrkur og þetta fyrirkomulag gerir betur en jafngilda samtímagreiðslum eins og þær voru í fortíðinni. Þetta er miklu hagkvæmara fyrirkomulag fyrir námsmenn. (Gripið fram í.) Þar að auki gagnrýndum við ósveigjanleika í reglunum varðandi námsframvindu. Nú er búið að kippa því í lag. Ég er fullkomlega sáttur við þetta frv. Ég er meira að segja stoltur af því og ég er þakklátur hæstv. menntmrh. fyrir samstarfið að gerð þess. Og ég tel að kosningaloforð okkar framsóknarmanna og það sem við höfum sagt um þetta mál gangi fyllilega eftir.