Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 16:52:01 (5109)

1997-04-14 16:52:01# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[16:52]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. er mér afskaplega þakklátur fyrir að ég skyldi rifja upp ræðurnar sem hann hélt 1992 um LÍN og ég get svo sem vel skilið það. Þetta voru snjallar ræður og hann tók töluvert upp í sig. En ég verð nú að segja að ekki datt mér í hug að það væri svona lítið á bak við það sem hann sagði. Ég hélt það væri eitthvað meint með t.d. lækkuðum endurgreiðslum, að það væri ekki 0,25% og snerti ekki einu sinni þá sem verst standa. Og að hæstv. félmrh. skuli standa hér upp og lýsa sérstakri ánægju sinni með það atriði eru mér veruleg vonbrigði.

Ég vil minna enn á að hér er alltaf verið að tala um einhverja 7% greiðslu, þ.e. að þetta hafi verið lækkað úr 7% endurgreiðslu. Það var enginn farinn að borga 7% og margbúið var að lýsa því yfir að sú fjárhæð stæðist ekki, að ekki yrði innheimt 7% vegna þess að þá gátu þeir sem það þurftu að borga ekki fengið mat í húsbréfakerfinuu. ,,Samtímagreiðslur eru í höfn``, segir hæstv. félmrh. Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði áðan: ,,Litlu verður Vöggur feginn.`` Hann hlýtur að líta á þetta með sérstöku gleraugunum sem ég var að tala um áðan og eru sérsmíðuð fyrir þá sem vilja sitja áfram í ríkisstjórn hvað sem það kostar.