Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 16:57:27 (5112)

1997-04-14 16:57:27# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[16:57]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Allt kjörtímabilið hefur verið beðið eftir þessu frv. í framhaldi af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en ekki síður kosningabaráttu framsóknarmanna og öllum stóru orðunum og fínu ræðunum sem voru fluttar af framsóknarmönnum á síðasta kjörtímabili og hér hefur verið vitnað ágætlega til af hv. síðasta ræðumanni, Sigríði Jóhannesdóttur. En loksins loksins birtist frv. eftir æðilanga meðgöngu og óhætt er að segja að fæðst hafi lítil mús.

Þau skref sem hér eru stigin eru flest að mínu mati spor í rétta átt, það skal viðurkennt, en þau eru allt of stutt og sum hver orka tvímælis þar sem ljóst er að þarna er fundin pólitísk málamiðlun sem birtist á mjög broslegan máta, ekki síst í greininni sem framsóknarmenn líta væntanlega á sem grein um samtímagreiðslur.

Þó að við Íslendingar búum að mörgu leyti við góð lög um Lánasjóð ísl. námsmanna miðað við það sem þekkist í nágrannalöndunum ... (Gripið fram í.) Ja, almennt. Ég er ekki að tala um að þetta kerfi sé fullkomið. Þó held ég að ef við miðum við t.d. England, Bandaríkin eða mörg önnur lönd, þá sé íslenska lánasjóðskerfið tiltölulega gott. Það er ekki hægt að segja annað. Það hefur það markmið að reyna að gera öllum kleift að stunda nám í háskólum og það eru ekki öll lönd sem hafa það markmið. Það er auðvitað alls ekki rétt að þetta frv. og þau lög sem nú eru í gildi nái því markmiði, því miður. En að mínu mati, þrátt fyrir að hér hafi verið nokkur pólitísk samstaða um að reyna að hafa sæmilega gott námslánakerfi, þá er staðan orðin mjög alvarleg að mínu mati þegar forsvarsmenn lánasjóðsins lýsa því yfir að ungir Íslendingar sem nú stunda nám geti ekki samtímis greitt lánin sín til baka og tekið húsnæðislán og greitt af þeim. Það var ljóst fyrir síðustu kosningar að þetta er staðan sem nú er komin upp. Það var ljóst og allir voru sammála um að það verði að bregðast við þeirri stöðu. Ég tel að þetta sé meginvandinn sem við verðum að takast á við nú. Hinn er sá sem kemur fram m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að þess er krafist af námsmönnum að þeir hafi bakhjarl sem tryggi greiðslu ef þeir eru ekki borgunarmenn fyrir lánunum. Það er bara staðreynd að sumir námsmenn hafa ekki þennan bakhjarl og þar af leiðandi þurfa þeir að fara í banka og taka dýrari lán. Þetta er að mínu mati ekki nógu gott ástand eins og Ríkisendurskoðun bendir réttilega á.

Það er mitt mat að þó að í frv. séu stigin nokkur skref í rétta átt, þá takist frv. ekki að leysa þessi tvö vandamál og það er alls ekki neitt tekið á þessu síðarnefnda.

Ef við lítum á helstu nýmæli frv. sem hér hafa verið til umræðu, þá vil ég fyrst nefna stóra málið sem hæstv. menntmrh. hefur sjálfur lýst yfir að vera mjög sammála, nefnilega því að lækka endurgreiðslubyrði á námslánum. Í greinargerð segir að endurgreiðsluhlutfall verði lækkað frá því sem var í fyrri lögum, þ.e. í 4,75% en það var allt að 7%. Þetta er að mínu mati í rétta átt en allt of lítið því að fyrstu fimm árin hefur endurgreiðsluhlutfallið verið 5% og nú á að lækka það niður í 4,75%. Þetta er 0,25% lækkun og þar fyrir utan er fastagreiðslan sem allir greiða óbreytt eða réttara sagt hækkuð í takt við vísitölu, úr 48 þús. í 52.500 þannig að þessi lækkun er mjög lítil fyrstu fimm árin, en það er einmitt þá sem ætla má að stúdentar vilji reyna að koma undir sig fótunum húsnæðislega og taka sitt fyrsta húsnæðislán. Auðvitað eru takmarkaðir fjármunir lagðir í þetta frv., reyndar 202--226 millj. samkvæmt mati fjmrn. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hefði komið til greina að dreifa þessu öðruvísi --- hlutfallið samkvæmt núgildandi lögum er 5% fyrstu fimm árin og síðan 7% --- hvort ekki hefði verið hægt að lækka hlutfallið meira fyrstu árin því að það er akkúrat þá sem stúdentar eru í mestum vanda vegna húsnæðislána og annars og tekjur þeirra eru kannski ekki komnar á það stig sem þær síðar verða.

Ég sá dæmi ekki alls fyrir löngu þar sem einhver reiknaði út að hjón í námi sem tækju húsnæðislán og væru með námslán þyrftu að lágmarki 500 þús. kr. í tekjur og mér sýnist að breytingin sem hér er gerð muni mesta lagi lækka þessa tekjuþörf um 10--20 þús. kr. Það er of lítið skref. Það er ekki nóg að gera þetta svona og þess vegna vil ég beina því til menntmrh., og ég mun taka það upp í nefndinni, hvort ekki er hægt að breyta þessu hlutfalli þannig að meiri lækkun verði fyrst, auðvitað helst meiri lækkun alfarið.

Ég skil frv. þannig að frá þessari 4,75% viðbótargreiðslu dragist fastagreiðslan sem er um það bil 52.500 kr. Það þýðir þá jafnframt að þeir sem t.d. eru atvinnulausir fá enga lækkun því það er bara þessi seinni greiðsla sem miðast við útsvarstekjur fyrra árs. Þeir sem eru atvinnulausir eða hafa mjög lágar tekjur þurfa því áfram að greiða 52 þús. kr. fastagreiðsluna á ári og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta er ekki réttur skilningur, þ.e. það kemur engin lækkun á þá sem verst standa.

Annar liðurinn sem er talinn upp þarna í nýmælum í frv. er eins og segir í greinargerð með frv., með leyfi forseta:

,,Teknir eru upp beinir styrkir til námsmanna vegna fjármagnskostnaðar sem þeir verða fyrir vegna lántöku hjá bönkum.``

Þetta er væntanlega pólitíska málamiðlunin sem náðist vegna óska námsmanna um samtímagreiðslur sem er mjög eðlileg ósk þar sem hér er um framfærslulán að ræða. Hver er lendingin? Hún er sú að tekinn verður upp beinn styrkur til námsmanna fyrir fjármagnskostnaði sem þeir verða fyrir vegna lántöku hjá bönkunum. Það á með öðrum orðum að greiða bönkunum 36--60 millj. kr. fyrir að lána út með þessum hætti. Það má vel vera að ríkisstjórnin sé sérstakur stuðningsaðili bankanna og ég tala nú ekki um ef einhverjir ákveðnir aðilar eru að eignast bankana í landinu eins og hér hefur verið rætt um fyrr í umræðunni. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort lánasjóðurinn treysti sér ekki til að gera þetta fyrir minni pening en 36--60 millj. og ef hann treystir sér til þess, hvers vegna það er ekki gert. Er það vegna þess að þetta er áhugamál menntmrh., sem ég er í sjálfu sér ekki á móti, þ.e. að hann vilji auka styrki til námsmanna, að þarna hafi fundist einhver pólitísk lausn eða að það eigi reyna að bræða þetta tvennt saman, að hugmyndin sé að þarna sé fyrsta skrefið í að veita námsmönnum styrki en ekki lán? Ég segi þetta vegna þess að það kemur skýrt fram að hugmyndin sé sú að allir nemar fái þennan styrk sem mér skilst að geti verið miðað við útreikninga 10--50 þús. Ég átta mig ekki alveg á hvort þarna er miðað við 6.500 lánþega eða 2.000 lánþega samkvæmt greinargerðinni, þ.e. á hversu marga einstaklinga þessi upphæð á að deilast. En én ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé hin pólitíska málamiðlun sem í þessu felst að hann sé í raun að koma sinni hugmynd um styrki til námsmanna þarna að og hvort hann hyggst ganga lengra á þeirri braut og þá hvernig, hvort við megum búast við nýju frv. um það eða hvort hugmyndin verði sú að allir fái einhvern tiltekinn styrk. En reyndin mun vera að þeir sem ekki hafa háar sumartekjur eða eiga fjársterka foreldra að bakhjarli munu þurfa að taka lán í bönkum en aðrir geta notað þetta sem styrk eða jafnvel til fjárfestingar. Þetta er því greinilega ekki samtímagreiðsla en þetta er ákveðin leið til þess að leysa það mál sem að mínu mati er mjög athyglisverð. Samt er sérstaklega kyndugt að ríkið skuli ákveða að eyða 60 millj. til bankanna til að greiða fyrir þessa þjónustu sem ég fullyrði að lánasjóðurinn ætti að geta gert fyrir mun minni pening. Ég skil ekki alveg hvers vegna það er ekki gert og þess vegna lagði ég þessar spurningar fyrir hæstv. menntmrh.

Þriðja nýmælið í frv. sem kemur fram á bls. 3 tengist stjórn sjóðsins. Þá breytingu tel ég til bóta eins og flestir ræðumenn sem hér hafa talað, þ.e. að fulltrúi Iðnnemasambands Íslands verði aðalmaður í stjórn í stað þess að vera áheyrnarfulltrúi eins og áður. Ég læt liggja á milli hluta hvort hæstv. menntmrh. á að fá þarna viðbótarmann í stjórn. Ég tel það ekki óeðlilegt.

Í fjórða lið um nýmæli frv. er aftur komið inn á jákvætt atriði að mínu mati, en það er að stjórn sjóðsins verði heimilt að veita viðbótarlán vegna veikinda námsmanns eða ef skólinn býður ekki upp á fullt nám. Þetta er svar við ábendingum stúdenta um að það sé mjög hörð krafa að það verði að vera 100% námsframvinda til þess að fá 100% lán. En þetta er að mínu mati veik grein vegna þess að þarna er aðeins um heimild að ræða og það kemur engan veginn fram í frv. hvernig með þessa heimild verður farið eða hvort hún verður notuð. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna ber sjóðnum ekki að taka tillit til þessara aðstæðna og veita viðbótarlán ef rökstuddar ástæður af þeim toga sem tilteknar eru koma fram? Hversu mikið fjármagn verður til staðar til þess að beita þessu heimildarákvæði? Fer það eftir geðþóttaákvörðun stjórnar? Hvað er það sem ræður því hvort þessi heimildargrein verður notuð, hversu oft, eða fá það allir sem sækja um þetta ef rökstuðningur er viðunandi? Ég vil nefna þetta sérstaklega t.d. í ljósi barnsburðar kvenna. Ég hef mikla reynslu af því að kenna í háskólanum og ég veit mörg dæmi þess að konur lenda í vandamálum vegna barnsburðar eða barnsfæðinga og því er mjög mikilvægt að vita hvort til stendur að nota þetta heimildarákvæði, eða hvers vegna þetta er ekki skylda.

Í beinu framhaldi af þessu vil ég vekja athygli, hæstv. forseti, á 2. gr. frv. Þar er talað um hlutverk stjórnar sjóðsins og það er, með leyfi forseta:

,,... að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum.`` Þetta var inni í núgildandi lögum. Síðan kemur viðbót: ,,Úrskurðir stjórnarinnar í þessu sambandi eru endanlegir og verða ekki kærðir til æðra stjórnvalds.``

Þá velti ég fyrir mér í framhaldi af því sem ég sagði áðan: Getur stjórnin ákveðið: ,,Nú ætlum við ekki að nota þessa heimild``, og þá er ekkert við því að segja og enginn getur sagt eitt né neitt. Þar fyrir utan efast ég stórlega um að svona ákvæði standist hreinlega stjórnsýslulögin. Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að það verði athugað í hv. menntmn. þar sem ég sit. En með því að skoða þessa heimildargrein í samhengi við 2. gr. er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því að staðið verði við það að veita viðbótarlán vegna veikinda eða vegna þess að námsframboð er takmarkað.

Þá vil ég vekja athygli á því, hæstv. forseti, að samkvæmt 4. gr. verða lánin áfram verðtryggð. Það er mjög mikilvægt að þjóðin og við öll munum eftir því að námslánin eru verðtryggð og greidd til baka. En sú breyting er gerð núna í þessu frv. að í stað þess að miða við lánskjaravísitölu í gildandi lögum, þá er miðað við vísitölu neysluverðs. Þetta tel ég að vísu fyrst og fremst vera tæknilega breytingu því að þetta á sér samsvörun í öðrum lagabreytingum sem hér hafa verið gerðar að undanförnu, en ég tel rétt að námsmenn sem og aðrir sem lesa þetta frv. eigi rétt á því að fá útskýrt, t.d. frá fjmrn. í greinargerð með frv., hvað þetta þýðir. Þess vegna vil ég spyrja --- ég mun afla mér upplýsinga um það í nefnd ef ekki fæst svar hér --- hvaða áhrif þetta hefur. Er þarna um einhverjar umtalsverðar upphæðir að ræða eða ekki?

Ég sakna þess að hæstv. menntmrh. hefur yfirgefið salinn. Ég vona að hann hafi náð þeim spurningum sem ég hef borið fram og að hann sé einhvers staðar í hliðarsölum. Ég tel að frv. sé spor í rétta átt að flestu leyti en það er allt of skammt gengið, ég tala nú ekki um í ljósi stóryrðanna sem fram komu í kosningabaráttunni, ekki síst frá þingmönnum Framsfl. og í ljósi þeirra ræðna sem voru fluttar á síðasta kjörtímabili. En ég mun, hæstv. forseti, fá tækifæri til þess að fylgja frv. eftir í menntmn. og afla þá þeirra upplýsinga sem ekki koma fram hér frá hæstv. menntmrh.