Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 17:17:32 (5113)

1997-04-14 17:17:32# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[17:17]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur vildi ég láta þær einföldu staðreyndir koma fram að endurgreiðslubyrði hefur verið lækkuð verulega. Það er tómur útúrsnúningur að tala um að lögin hafi aldrei náð til þeirra 7% sem í þeim stóðu. Að sjálfsögðu hefðu lögin gert það þegar að slíkum endurgreiðslum hefði komið þó að ekki hafi verið komið að því, þannig að endurgreiðsluhlutfallið hefur verið hækkað verulega. Þetta var annað af þeim meginatriðum sem ég barðist fyrir.

Hitt meginatriðið að námsmenn fengju samtímagreiðslur, þ.e. greiðslur jafnharðan og námi þeirra vindur fram, er einnig tryggt á þann hátt að nú geta námsmenn fengið þessi lán greidd frá bönkunum og fjármagnskostnaður og lántökukostnaður er allur greiddur. Ég geri engan greinarmun á því og það er hreinn útúrsnúningur í nútímaviðskiptalífi og athafnalífi að gera einhvern greinarmun á því hvort lán kemur frá bönkum eða opinberum sjóði. Aðalatriðið er þetta: Námsmennirnir fá samtímagreiðslur. Fjármagnskostnaðurinn er greiddur af ríkinu þannig að námsmaðurinn ber hann ekki. Þetta eru samtímagreiðslur. Með þessu og ýmsu öðru sem kemur fram í frv. hefur Framsfl. og sá sem hér stendur fyllilega staðið við sín loforð hvað þetta varðar.

Ég ætla ekki að gera önnur atriði að umræðuefni því að þingmaðurinn sem talaði á undan mér benti vissulega á margt hið jákvæða sem kemur fram í frv.