Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 17:19:35 (5114)

1997-04-14 17:19:35# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[17:19]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér verður nú á að segja: Var það virkilega svona lítið sem þið framsóknarmenn meintuð? Var það virkilega svona lítið? Lækkun úr 5% fyrstu fimm árin niður í 4,75% og engin lækkun fyrir þá sem eru með lágar tekjur eða atvinnulausir, þ.e. þeir þurfa áfram að greiða sína föstu greiðslu. Var þetta það sem þið meintuð? Ég verð nú að segja að ég held að einhverjir hafi þá misskilið hvað þið voruð að segja.

Ég ætla ekki að endurtaka skilning okkar á samtímagreiðslum. Það er rétt, stúdentar munu fá möguleika á því að fá greitt mánaðarlega gegn því að greiða í raun og veru úr eigin vasa því að öðrum kosti gætu þeir fengið peninginn sjálfir.