Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 17:49:03 (5122)

1997-04-14 17:49:03# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[17:49]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það frv. sem hér liggur fyrir verði nú seint talið til stórsigurs framsóknarmanna. Hv. þm. Hjálmar Árnason, sem flutti tölu sína áðan, hafði orð á því að þetta sérstaka ákvæði sem kveður á um úrskurði stjórnarinnar í þessu sambandi séu endanlegir og verða ekki kærðir til æðra stjórnvalds, að það verði á einhvern hátt réttlætt með því að stjórn sjóðsins sé heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins. Ég vildi aðeins fá skýringu hv. þm. á því hvort það sé hans skilningur að þetta fyrirkomulag komi í staðinn fyrir þennan sjálfsagða málskotsrétt, hvort það sé skilningur hv. þm.

Enn fremur hlýtur það að teljast mjög undarlegt, virðulegi forseti, í ljósi þess að kæra til æðra stjórnvalds er miklum mun ódýrari fyrir alla aðila en þurfa að standa í því að sækja sín mál fyrir dómstólum og námsmenn eru kannski fæstir svo efnaðir að þeir geti verið með lögmenn á sínum snærum þegar þeir sættast ekki alveg á úrskurði stjórnarinnar. Mig langaði því að heyra frá hv. þm. hvort það sé hans skilningur að undirnefndir bjargi þessu klúðri eins og þetta ákvæði er úr garði gert í frv.