Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:19:31 (5125)

1997-04-14 18:19:31# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:19]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður fór mikinn og flutti með ágætum tilþrifum ræðu sem mér fannst því miður ekki afskaplega málefnaleg heldur um of einkennast af gífuryrðum, hrópum og köllum, en flutningurinn var skemmtilegur. Þá finnst mér athyglisvert að einkum í fyrri hluta ræðunnar vék hv. þm. mjög oft að lagasetningu sem átti sér stað 1992, þegar gildandi lög voru sett, en lítur fram hjá því að við erum einmitt að breyta lögum núna vegna þess að það er ósætti um þau lög sem þá voru sett. Og að blanda þessu tvennu saman finnst mér ekki afskaplega málefnalegt. Hann sakar síðan framsóknarmenn um að flytja lofræðu um það. Það má kalla það lofræðu eða hvað sem er. Hins vegar hafa framsóknarmenn reynt að fjalla málefnalega um það hverju þeir hafa haldið fram og hvað felst í þessu og hvernig þeir túlka þetta. Ég geri svo sem lítið með þá túlkun sem hv. síðasti ræðumaður hefur á því. Það er hans túlkun og hans gífuryrði en ég minni á þær raddir sem m.a. hafa komið frá fulltrúum námsmannahreyfingarinnar, eins og stjórn Iðnnemasambandsins og fleirum. Þar er litið á þetta mál öðrum augum en hv. síðasti ræðumaður. Það er einnig athyglisvert að í því mikla írafári sem gert er úr 4,75% endurgreiðsluhlutfallinu er hægt að benda á að fyrir þinginu liggur frv. frá hv. þm. Alþb., þar sem gert er ráð fyrir 4,5% og það munar sannarlega ekki nema 0,25% --- úlfur, úlfur!

Þá vil ég að lokum, herra forseti, talandi um trúverðugleika, minna á að í ráðherratíð hv. síðasta ræðumanns reyndi hæstv. þáv. ráðherra að koma á breytingum á Lánasjóði ísl. námsmanna. Hann vakti þar með miklar væntingar og vonir en tryggði þær ekki með fjárframlögum. Og hvað er það sem menn hafa gagnrýnt fyrir ótrúverðugleika?