Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:24:39 (5128)

1997-04-14 18:24:39# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:24]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki lítið sem menn eru búnir að afreka. Ég segi alveg eins og er að mér sýnist að hv. þm. sé bara í góðum málum eins og það heitir í Spaugstofunni. En ég hvet hann til að lesa tillögur framsóknarmanna í nefndinni um endurskoðun Lánasjóðs ísl. námsmanna frá því í fyrra. Lagt fram í mars 1996. Þar eru ein 30 atriði sem mér sýnist að hafi bara dottið út af einhverjum ástæðum. Ég hef ekki tíma til að lesa þau öll upp hér en það er bersýnilegt að hv. þm. þarf að gera sér grein fyrir að það getur verið einn og einn maður hér í salnum sem er með á pappír það sem hann er að fullyrða. Fyrir utan það sem hann sagði svo um lánasjóðinn eins og hann var 1991 ætla ég bara að segja alveg eins og er, að ef það er hörð gagnrýni sem fram kemur í skýrslu námsmanna um lánasjóðinn þá kann ég vel að meta þá gagnrýni vegna þess að í raun og veru er þvert á móti talað um að í reynd hafi eiginfjárstaða sjóðsins verið allgóð.

Aðalatriðið er það, herra forseti, eins og hæstv. iðnrh. benti á á síðasta kjörtímabili, að það var þjóðarsátt um lánasjóðinn. Það voru sett lög um lánasjóðinn 1982 og það var mjög góð sátt um þau lög. Það var í tíð Ingvars Gíslasonar, sem er framsóknarmaður og beitti sér mjög í þessum málum og á myndarlega sögu í lánamálunum, sem er annað en sagt verður um núv. hæstv. ráðherra Framsfl. Síðan eyðilögðu þeir þetta mál að nokkru leyti á síðasta kjörtímabili, skemmdu sjóðinn verulega. Það fækkaði t.d. lántakendum hjá sjóðnum um 30% á mjög stuttum tíma. Það er alveg ljóst mál að með þessu frv. eins og það lítur út er ekki, ég endurtek, ekki, verið að koma aftur á þjóðarsátt um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það verða áfram, þrátt fyrir þetta plagg, átök um þann sjóð.