Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 13:33:06 (5139)

1997-04-15 13:33:06# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[13:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, með síðari breytingum. Mál þetta er flutt á þskj. 874 og er 522. mál þingsins.

Tilgangur laganna um búfjárhald er að tryggja svo sem kostur er góða meðferð búfjár og að við framleiðslu búfjárafurða sé eingöngu notað hraust og heilbrigt búfé. Það frv. sem hér er flutt varðar ákvæði III. kafla laganna um vörslu búfjár og ákvæði V. kafla sem fjallar um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár.

Tilgangur forðagæslunnar er að tryggja að ætíð sé til nægilegt fóður fyrir þann fénað sem settur er á vetur og að unnt sé að grípa til ráðstafana ef út af ber. Ýmsir kunna að álíta að slík eftirlitskerfi séu úrelt og eigi ekki heima í nútímalandbúnaði en þrátt fyrir að gífurlegar breytingar hafi orðið á nútímabúskaparháttum eftir miðja þessa öld og fóðuröflun orðið tryggari sýnir reynslan að forðagæsla gegnir enn mikilvægu hlutverki þó í breyttri mynd sé að nokkru leyti.

Starfi forðagæslunnar er þannig hagað að skráð er allt búfé sem sett er á vetur, birgðir gróffóðurs mældar og metnar að magni og gæðum og skráð er uppskera korns og garðávaxta. Athugaður er húsakostur og aðbúnaður fénaðar, þar með talið aðbúnaður og ástand útigangshrossa. Ef fram kemur að fóður skorti snemma vetrar er gripið til viðeigandi ráðstafana og þess eru mörg dæmi að upplýsingar úr skýrslum um heyfeng hafi verið notaðar til að jafna fóðurbirgðir milli héraða vegna harðinda og grasbrests og þannig komið í veg fyrir alvarlegri áföll. Þá er búfjáreftirlitsmönnum ætlað það hlutverk að fylgjast með ástandi beitilanda í byggð á starfssvæði sínu. Slíkt eftirlit er undirstaða beitarstjórnunar og hóflegrar nýtingar lands.

Með þeirri framkvæmd sem að framan er lýst skapast grundvöllur til þess að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og koma í veg fyrir vanfóðrun og illa meðferð búfjár. Sambærilegt eftirlit er ekki í framkvæmd samkvæmt lögum um dýravernd, nr. 15/l994. Því er veigamikill eðlismunur á þessum lögum. Markmið laganna um búfjárhald er að koma í veg fyrir að vandamál skapist vegna fóðurskorts og vanhirðu, en samkvæmt lögum um dýravernd eru að jafnaði ekki tök á að grípa inn í fyrr en talið er að í óefni er komið.

Búfjáreftirlitsmenn, sem starfa á vegum sveitarstjórna, annast þessi störf undir umsjón búnaðarsambandanna. Þessu eftirlitsstarfi er ekki sinnt með öðrum hætti og því er ekki um að ræða tvíverknað eða skörun milli stofnana. Bændasamtök Íslands hafa yfirumsjón með framkvæmdinni og annast úrvinnslu gagna. Lögin setja verulegar takmarkanir um hverjir hafa aðgang að þessum upplýsingum og er ákvörðun um það í höndum landbúnaðarráðuneytisins. Upplýsingar forðagæslunnar eru veigamikill liður í gagnaöflun Hagstofu Íslands að því er varðar landbúnað og upplýsingar um fjölda sauðfjár á einstökum lögbýlum eru grundvöllur framleiðslustjórnunar í sauðfjárframleiðslunni. Hefur notkun þessara gagna aukist á seinni árum vegna ýmiss konar áætlanagerðar og rannsókna varðandi þróun landbúnaðarins. Til samanburðar má geta þess að í Evrópusambandinu er sérstakt eftirlitskerfi til að afla slíkra gagna og þau notuð með ýmsum hætti við stjórnsýslu, svo sem í sambandi við beingreiðslur til bænda líkt og hér er gert svo og vegna styrkveitinga af ýmsu tagi.

Til þess að eftirlitskerfi eins og það sem að framan er lýst geti þjónað tilgangi sínum þurfa eftirlitsmenn að eiga aðgang að öllum býlum og ákvæði laga þurfa að vera skýr um málsmeðferð sé þeim synjað um aðgang eða þeir hindraðir á annan hátt við störf sín. Nokkuð hefur borið á því á undanförnum árum að bændur hafa synjað eftirlitsmönnum um upplýsingar og aðgang að býlum sínum. Verði framhald á slíku skerðir það áreiðanleika og gildi þeirra upplýsinga sem hér um ræðir og getur hindrað eðlilega framkvæmd ýmissa ákvæða, svo sem að því er varðar beingreiðslur í sauðfjárframleiðslu.

Breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á gildandi lögum um búfjárhald, miðast í fyrsta lagi að því að tryggja hindrunarlausa framkvæmd ákvæðanna um forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár. Í öðru lagi að styrkja hlutverk búfjáreftirlitsmanna sem eftirlitsmanna með nýtingu lands og í þriðja lagi að renna traustari stoðum undir þau ákvæði laganna er varða heilbrigði búfjár.

Einn megintilgangur laganna um búfjárhald er að tryggja að við framleiðslu búfjárafurða sé eingöngu notað hraust og heilbrigt búfé. Vaxandi kröfur neytenda um skilgreindar og rekjanlegar upplýsingar um uppruna búfjárafurða, og ekki síður alvarleg sjúkdómstilfelli í búfénaði í Evrópu nýverið, gera það að verkum að taka þarf reglur um merkingar gripa til gaumgæfilegrar skoðunar og aðlaga þær nútímakröfum og breyttum aðstæðum. Í löndum Evrópusambandsins er nú þegar skylda að merkja alla gripi samkvæmt viðurkenndu merkjakerfi sem samræmt er fyrir aðildarlöndin öll. Umræða um búfjármerkingar hér á landi hefur verið í samræmi við þróun þessara mála víða erlendis. Í lögum nr. l62/l994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu og reglugerð við þau, er kveðið svo á að við slíka framleiðslu skuli allt búfé vera einstaklingsmerkt með öruggum hætti. Skal það skráð í búfjárskýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands eða annarri sambærilegri skrá sem vottunarstofa viðurkennir. Skrá skal öll sjúkdómstilvik, lyfjanotkun og bólusetningar fyrir einstaka gripi á býlunum. Hliðstæð ákvæði um einstaklingsmerkingu sláturgripa eru í reglugerð nr. 89/l996, um sértækt gæðastýrða íslenska landbúnaðarframleiðslu, sem sett er á grundvelli ákvæða í 67. gr. búvörulaganna nr. 99 frá 8. september 1993.

Hæstv. forseti. Með hliðsjón af framansögðu er talin ástæða til að styrkja nokkur ákvæði laganna til að tryggja framkvæmd þeirra og er þetta frv. flutt í því skyni. Mun ég nú gera nánari grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til í frv.

Á búnaðarþingi l996 var samþykkt ályktun þess efnis að komið skyldi á einstaklingsmerkingum á öllum nautgripum hér á landi og ályktun sama efnis var samþykkt á aðalfundi Landssambands kúabænda í ágúst l996. Á vegum Bændasamtaka Íslands hefur verið gerð áætlun um framkvæmd slíkrar aðgerðar. Þá er áhugi fyrir því innan Félags hrossabænda að taka upp merkingar hrossa með svipuðum hætti til þess m.a. að kaupendur hrossa geti betur treyst því að ætterni þeirra sé rétt tilgreint á upprunavottorðum en slíkt er að sjálfsögðu mjög mikilvægt fyrir reiðhrossamarkaðinn. Til þess að tryggja lagagrundvöll fyrir slíkri framkvæmd er lagt til að bætt verði við 5. gr. laganna nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um heimild til að koma á skyldumerkingu búfjár eftir viðurkenndu merkingar- og skráningarkerfi.

Eftirlit með fóðuröflun og meðferð búfjár er annar megintilgangur laganna um búfjárhald. Til þess að gera þennan tilgang skýrari og ótvíræðari er í 1. mgr. 10. gr. bætt inn ákvæðum til þess að treysta framkvæmd þeirra.

Eitt af hlutverkum búfjáreftirlitsmanna er að fylgjast með beitilandi í byggð á starfssvæði sínu. Til þess að gera þessa framkvæmd markvissari en verið hefur er bætt inn ákvæði um að búfjáreftirlitsmaður skuli gera sveitarstjórn og landgræðslustjóra aðvart telji hann um illa meðferð lands að ræða.

Með vaxandi hrossaeign þéttbýlisbúa færist það í vöxt að bændur taki hross í hagagöngu. Vill þá brenna við að ekki séu fyrir hendi upplýsingar um eigendur og ábyrgðarmenn hrossanna. Því þykir rétt að skylda landeigendur til að hafa jafnan tiltækar upplýsingar um eigendur og fjölda gripa í hagagöngu á landi þeirra.

Nokkuð er jafnan um að ábúendur lögbýla og aðrir umráðamenn búfjár meini búfjáreftirlitsmönnum aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum. Slíkt dregur úr gildi uppýsinganna og veldur, sem fyrr segir, erfiðleikum við ýmsa framkvæmd, t.d. að því er varðar framleiðslustjórnun í sauðfjárframleiðslu. Rétt er að hafa í huga að oftar en ekki tengist tregða búfjáreigenda við að leyfa búfjáreftirlitsmönnum aðgang að gripahúsum sínum og beitilöndum því að ekki er allt með felldu hvað varðar meðferð lands, fóðurbirgðir og velferð dýranna. Með tilliti til framansagðs er talið nauðsynlegt að treysta ákvæði laganna svo grípa megi til aðgerða í slíkum tilvikum. Því er við niðurlag 10. gr. bætt ákvæði sem heimilar landbrh. með aðstoð lögregluyfirvalda að grípa til nauðsynlegra ráðstafana takist sveitarstjórn ekki að leiða málið til lykta.

Umtalsverður kostnaður getur fylgt því fyrir viðkomandi sveitarstjórn ef grípa þarf til aðgerða vegna fóðurskorts og vanhirðu búfjár. Í sumum tilfellum getur verið um að ræða umtalsverðar fjárhæðir sem sveitarstjórn er ábyrg fyrir. Því er lagt til að sett verði í lögin skýr ákvæði sem tryggi sveitarstjórn rétt til að krefjast veðs í fénaði viðkomandi bónda vegna greiðslu kostnaðar sem af slíkum aðgerðum hlýst.

Til þess að tryggja tafarlausar aðgerðir ef upp koma alvarleg brot vegna fóðurskorts, hirðuleysis eða harðýðgi gagnvart dýrum er lagt til að við 11. gr. verði bætt ákvæði sem heimilar lögreglustjóra að svipta búfjáreiganda fyrirvaralaust og til bráðabirgða leyfi til búfjárhalds í samræmi við dýraverndarlög. Skal þá búfénu ráðstafað eins og búfjáreftirlitsmaður, trúnaðarmaður búnaðarsambands og héraðsdýralæknir telja best að tryggja velferð þess.

Hæstv. forseti. Ég hef í ræðu minni rakið helstu atriði frv. en vísa að öðru leyti til greinargerðar og athugasemda með frv. Drög að frv. voru lögð fyrir nýafstaðið búnaðarþing sem mælti með samþykkt þess. Ég er tilbúinn til þess að skoða frekar þau atriði sem ég hef rætt í samvinnu við landbn. þingsins og leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. landbn.