Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 13:42:12 (5140)

1997-04-15 13:42:12# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., GBeck
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[13:42]

Guðmundur Beck:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við þessar fram komnu breytingar á lögum nr. 46/1991 sem hæstv. landbrh. var að gera grein fyrir. Það er fyrst til að taka 1. gr. sem er breyting við 5. gr. núverandi laga um að landbrh. skuli heimilt að ákveða merkingar á búfé. Ég tel að þessi grein sé algerlega óþörf. Það er kveðið mjög skýrt á um merkingu á búfé í frv. til laga og núverandi lögum um afréttarmálefni og fjallskil. Ég tel því algerlega óþarft að endurtaka þær setningar í þessum lögum og fara að búa til aðra reglugerð þar að lútandi. Nógur er nú reglugerðafrumskógurinn í okkar samfélagi samt.

Um 2. gr., sem er breyting við 10. gr., er þar talað um, eins og reyndar í núgildandi lögum, að síðari yfirferð eftirlits skuli lokið fyrir lok aprílmánaðar. Ég hefði talið eðlilegt að þessari yfirferð lyki öllu fyrr eða um það bil 15. apríl miðað við aðstæður nú. Það hafa orðið töluverðar breytingar á burðartíma og meðferð búfjár á undangengnum árum sem mér finnst réttlæta að þessi tími sé færður örlítið fram og mönnum gefist þannig tækifæri til að grípa til aðgerða áður en í óefni er komið, ef til þess kemur. Það er mjög alvarlegt mál, t.d. með sauðfé, ef það er farið að tapa miklum holdum á síðustu 6 vikum meðgöngu.

Næsta atriði í þessari grein sem ég vil gera athugasemd við er þar sem talað er um að búfjáreftirlitsmaður skuli afla upplýsinga um kartöflur, rófur, gulrætur og annað grænmeti. Ég sé nú ekki hvað það kemur búfjáreftirliti við. Mér finnst það alls ekki eiga heima inni í þessum lögum og alls ekki koma búfjáreftirliti við.

Hér er talað um beitiland og eftirlit með beitilandi sem búfjáreftirlitsmaður skuli hafa eftirlit með og að hann skuli fylgjast með beitilandi í byggð. Þetta er dálítið teygjanlegt hugtak. Hvað er beitiland í byggð? Er átt við öll heimalönd jarða? Ég vil fá nánari útlistingu á þessu. Það verður að minnsta kosti að gera grein fyrir því í greinargerð hvað menn eiga við þarna. Það er mjög umfangsmikið starf ef búfjáreftirlitsmaður á að líta eftir öllum heimalöndum jarða. Þau eru oft mjög víðlend þar sem ekki er um afréttarlönd að ræða.

Þessa nýju viðbót um að telji búfjáreftirlitsmaður meðferð lands ábótavant skuli hann tilkynna sveitarstjórn og landgræðslustjóra tel ég mjög eðlilegt ákvæði og ég fagna því að það komi inn. Það var ekkert í fyrri lögum sem gerði ráð fyrir að málinu væri fylgt eftir. Lýsi ég ánægju minni með það.

[13:45]

Næst er hér til að taka að í frv. segir, með leyfi forseta:

,,Takist sveitarstjórn ekki að leiða málið til lykta skal hún innan viku senda skriflega tilkynningu um það til landbúnaðarráðherra.``

Mér finnst þetta í hæsta máta óeðlilegt. Ég spyr hvort hér sé ekki verið að láta landbrh. ganga í störf lögreglustjóra og hvort ekki sé eðlilegra að lögreglustjóri vinni úr slíkum málum en að hlaupið sé til og klagað beint í landbrh. til að framfylgja þessari lagagrein. Mér sýnist nú reyndar að því miður hafi sveitarfélög og bændur ekki sérlega góða reynslu af embættisfærslu núv. hæstv. landbrh.

Hér er ný grein, með leyfi forseta:

,,Landeigandi er ábyrgur fyrir því að fullnægjandi upplýsingar séu fyrir hendi um fjölda og eigendur gripa sem eru í hagagöngu á landi hans.``

Þetta tel ég til bóta og tel eðlilegt og að þessi grein komi þarna inn til að auðveldara sé að fylgjast með beit og þrifum búfjár í girðingum og beitilöndum.

Hér stendur: ,,Ábúandi viðkomandi lögbýlis, búfjáreftirlitsmaður og trúnaðarmaður búnaðarsambands skulu undirrita skýrslu ...``

Þetta er mjög sjálfsögð krafa og mjög gott að þetta skuli komast þarna inn og ég lýsi ánægju með það. Þar næst kemur aftur það sem ég nefndi áðan um uppskeru korns og það að senda bændasamtökum skýrslu. Ég tel að þessi upptalning sé óþörf því þetta komi ekki þessu frv. við eða því sem það fjallar um, þ.e. eftirliti með búfjárhaldi og því eigi skilyrðislaust að fella þetta niður. Hér í enda greinarinnar er sagt:

,,Leiki rökstuddur grunur á að talningu búfjár hafi verið ábótavant er landbúnaðarráðherra heimilt að ákveða sérstaka talningu búfjár.``

Ég tel að þetta orki mjög tvímælis og spyr hvort menn treysti sveitarfélögunum til að sjá um þessa framkvæmd eða ekki. Ég spyr hæstv. landbrh.: Hver var árangurinn af síðustu talningu eða þjófaleit eins og ég kallaði það nú reyndar, þar sem farið var inn í hús hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum til að telja fáeinar kindur sem þeir höfðu sér til lífsviðurværis? Ég held að það væri nær að snúa sér að því að bæta kjör bænda en að reyna að ýta fleirum niður fyrir fátæktarmörk.

Síðan kemur 3. gr. sem er breyting á 11. gr. núv. laga: ,,Sveitarstjórn er heimilt að krefjast veðs í þeim fénaði til tryggingar greiðslu alls kostnaðar af þessum ráðstöfunum.``

Ég tel þetta ákvæði slæmt og enga þörf á að bæta því hér inn í. Í núgildandi 11. gr. stendur:

,,Búfjáreigandi, er hlut á að máli, ber allan kostnað af þessum ráðstöfunum.``

Ég tel þetta fullnægjandi ákvæði. Það að taka bústofn af búfjáreiganda er alltaf neyðarúrræði. Ég tel að þetta ákvæði um veðkröfu gæti freistað sveitarstjórna til að ganga of langt í að hrekja menn frá búum sínum. Nógu ljótur er nú hlutur ríkisvaldsins í þeim efnum. Ég tel að þau tilvik geti komið upp að heppilegra sé að sveitarstjórn aðstoði einstaka bændur, sem í dag eru í mörgum tilfellum öryrkjar eða ellilífeyrisþegar, við að afla sér heyforða, heldur en að hrekja þá frá starfi sínu og á framfæri félagsmálastofnana sem reyndar eru í fæstum tilfellum til í sveitum landsins.

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri til að benda á þá staðreynd að samkvæmt tölum frá Hagþjónustu landbúnaðarins voru árið 1992 meðalfjölskyldutekjur á sauðfjárbúum 1.286 þús. kr. en þremur árum seinna, á árinu 1995, var þessi tala komin niður í 680 þús. kr. Tekjur sauðfjárbænda hafa því á aðeins þrem árum lækkað um helming. Ég hlýt að lýsa eftir stefnu hæstv. landbrh. í þessum málum og hvernig hann ætlar að rétta kjör bænda. Tæplega fá þeir allir vinnu í álverinu í Hvalfirði.