Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:10:05 (5146)

1997-04-15 14:10:05# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:10]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessar ágætu umræður og ýmsar ábendingar sem hafa komið fram um þetta frv. Ég vil lýsa því yfir aftur, sem ég gat um í lok framsöguræðu minnar, að auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að landbn. taki þau mál sem hafa komið upp í umræðunni til sérstakrar skoðunar og ég er tilbúinn til samvinnu við landbn. um að skoða þau mál og gera á breytingar er mega verða til bóta. Það er eðli málsins og hlutverk þingsins og nefndarinnar.

Ef ég kem fyrst að því sem hv. 8. þm. Reykv. nefndi síðast í ræðu sinni af því að ég er að tala um meðferð frumvarpa og tilurð þeirra og það segir hér að þetta frv. sé samið í ráðuneytinu, þá er ábending hans út af fyrir sig alveg eðlileg að stundum er nauðsynlegt og ástæða til að fleiri komi að samningu frumvarpa en bara embættismenn að frumkvæði ráðherra væntanlega. En í þessu tilviki er verið að taka á tveimur þáttum sem hafa komið upp varðandi vanda í framkvæmd málsins og það eru mál sem koma inn í ráðuneytið. Þangað koma athugasemdirnar og ábendingarnar um erfiðleika í framkvæmdinni og þess vegna eðlilegt að ráðuneytin bregðist við. Þegar um er að ræða meiri háttar endurskoðun eða breytingar á lögum, ég tala nú ekki um heildarendurskoðun, er eðlilegt að fleiri aðilar komi að því máli en bara embættismenn. Í tilvikum eins og þeim sem hér eru til meðferðar hlýtur mjög oft að vera eðlilegt að staðið sé að málinu eins og hér er gert og það á sér eðlilegar skýringar. Ég get að öðru leyti verið efnislega sammála athugasemdum eða ábendingum sem fram komu hjá hv. 8. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Vesturl.

Mig langar aðeins að fara lauslega yfir þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þm. Hv. 4. þm. Austurl. hóf umræðuna og gerði nokkrar athugasemdir, m.a. við 1. gr. frv. og mér fannst hann ekki vera alveg sammála athugasemdum og ábendingum hv. 8. þm. Reykv. sem lagði mikla áherslu á mikilvægi þessarar greinar og nauðsyn þess að taka á merkingarmálum og skráningarkerfi varðandi búfjárhald. Ég er hv. 8. þm. Reykv. algerlega sammála en skildi ekki fyllilega athugasemd hv. 4. þm. Austurl. um að greinin væri algerlega óþörf.

Hins vegar benti hann réttilega á að annað frv. kemur til umræðu strax á eftir þessu þar sem fjallað er um afréttarmálefni. Um mismuninn á þessum tveimur frv. er því til að svara að frv. um búfjárhaldið gerir fyrst og fremst ráð fyrir merkingunni vegna einstaklingsmerkingar og mikilvægis þess að vitað sé um uppruna búfjárins. Ekki síst á þetta við í sambandi við hrossaræktina og mikilvægi þess markaðar, eins og hv. 8. þm. Reykv. benti mjög réttilega á. Hitt frv. fjallar hins vegar um merkingar búfjár vegna eignarhaldsins og kemur skýrt fram í því frv. sem við ræðum á eftir, en málin eru að því leytinu skyld að verið er að tala um nýjar aðferðir við merkingar búfjár, þ.e. hinar svokölluðu örmerkingar. Það getur vel verið að það sé rétt ábending hjá hv. 8. þm. Reykv. að kveða ætti skýrar á um það í 1. gr. hvað átt er við, þ.e. að verið sé að innleiða eða heimila notkun á nýjum merkingaraðferðum og þá er fyrst og fremst verið að tala um örmerkingarnar svokölluðu sem ég skýri kannski betur út við framsögu um hitt frv. þannig að ég læt þetta duga núna.

Ýmsar ágætar athugasemdir sem komu fram hjá hv. 4. þm. Austurl. vænti ég að nefndin taki til skoðunar. Sumar þeirra athugasemda eru við lögin eins og þau eru, ekki við frv., þ.e. ekki við þær breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er t.d. engin breyting í frv. varðandi núgildandi lög um hvenær eftirliti skuli lokið. Séu menn á því að breyta því, að apríllok eða aðrar tímasetningar séu ekki réttar, þá er það mál sem mér finnst sjálfsagt að skoða, en það er ekki verið að taka á því í þessu frv. Í því er fyrst og fremst verið að taka á eftirlitsþættinum og hvernig hægt er að auðvelda eftirlitið og auðvelda það að fylgja því eftir. Það eru þau atriði í frv. sem eru nýmæli. Þetta á eins við athugasemdir hv. þm. um grænmeti, gulrófur, kartöflur og fleira sem hér er upp talið. Ekkert af þessu er nýtt. Það sem er nýtt í málinu er að bætt er við uppskeru korns.

Ef hv. þm. og hv. landbn. telur að ekki sé lengur ástæða til þess að búfjáreftirlitsmennirnir fylgist með þessum þætti í landbúnaðinum og eftirliti með þessu, sem er nú fyrst og fremst gert vegna sýsluhalds og upplýsingagjafar, þá er það annað mál en er ekki meginefni þess frv. sem hér er talað um.

[14:15]

Varðandi athugasemd hv. þm. um beitiland í byggð vísa ég til þess að ekki er breyting hér heldur vænti ég að einhver hefð hafi skapast í þessu sambandi og landbn. mun þá afla sér nánari upplýsinga um það sem mér er ekki unnt að gefa á þessu stigi. Síðan kemur að athugasemdum hans og fleiri þingmanna bæði hv. 6. þm. Suðurl. og hv. 2. þm. Vesturl. um meðferðina sjálfa á eftirlitinu og það er þar sem verið er að taka á. Það er það sem verið er að gera athugasemdir við vegna þess að reynslan hefur sýnt að ef búfjáreftirlitsmanninum, sem er starfsmaður sveitarstjórnar og starfar í umboði hennar, hefur ekki tekist, og sveitarstjórninni síðan í framhaldi af því, að framfylgja lögunum, þá er hér hert á þeim ákvæðum. Ef menn telja að þetta sé ekki rétt boðleið vegna þess að lögreglustjóri og löggæsluyfirvöld eigi að koma að málinu með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, þá harma ég ekki þó að sá kaleikur sé tekinn frá landbrh. Ég hef hins vegar gaman af því að koma í hús hjá bændum og ætla ekkert að láta af því þó ég sé ekki beinlínis skikkaður til þess hvorki með þessum lögum né öðrum þannig að ég mun auðvitað fylgja því áhugamáli mínu áfram. En það er sem sagt gert ráð fyrir ákveðnu ferli. Það er búfjáreftirlitsmaðurinn sem auðvitað reynir í fyrsta lagi að sinna sínum störfum.

Í 2. mgr. 2. gr. frv., breytingu við 10. gr. laganna, sem hv. þm. hafa verið að vitna til og hv. 6. þm. Suðurl. las upp úr, segir hvernig þessi ágæti búfjáreftirlitsmaður skal haga sér takist honum ekki að fylgja máli sínu fram, þ.e. hann tilkynnir það auðvitað sínum vinnuveitanda sem er sveitarstjórnin. Hann starfar í umboði sveitarstjórnarinnar.

Nú hefur reynslan sýnt okkur að sveitarstjórnum hefur ekki tekist, miðað við núgildandi lagaákvæði, að fylgja sínu máli eðlilega fram. Þess vegna er þessi frumvarpssmíð til orðin að tilhlutan og beiðni búfjáreftirlitsmanna og sveitarstjórna þar sem þessi vandamál hafa komið upp. Ég get þá svarað hv. 2. þm. Vesturl. til um það að málið er m.a. til komið vegna óska frá sveitarstjórnum, þó að sennilega hafi ekki verið eða ég veit ekki hvort sérstakt samráð hafi verið haft við t.d. Samband ísl. sveitarfélaga um frv. Málið kemur því að hluta til og má a.m.k. segja óbeint frá ákveðnum sveitarstjórnum sem hafa lent í erfiðleikum með þetta eftirlit. Þá kemur einnig fram ósk þeirra um það að þurfi sveitarfélögin eða sveitarstjórnirnar að beita sér í málinu þá er farið fram á að sveitarfélögin geti líka tryggt greiðslur á þeim kostnaði sem þau verða fyrir. Kemur þá ákvæðið um veðið, sem hv. 4. þm. Austurl. gerði athugasemdir við og sjálfsagt að nefndin skoði hvort menn vilja eða sjái leiðir til að tryggja það á annan hátt. Ég vona að þetta sé nokkuð skýrt um málatilbúnaðinn, tilurðina og tilganginn, og jafnframt það að landbrh. skuli láta fara fram sérstaka skoðun hvort sem hann gerir hana sjálfur eða aðrir. Ég held að það sé skýrt að það verður að vera eins og segir í næsta málslið, sem hv. 6. þm. Suðurl. las reyndar ekki. Þar segir: ,,Skylt er lögreglu að fara með búfjáreftirlitsmanni til skoðunar og eftirlits sem þannig er ákveðið.`` Þar kemur þá inn hlutur löggæslu, lögreglustjóra eða lögreglu að málinu. (Gripið fram í: Eftir að talað hefur verið við landbrh.) Eftir að talað hefur verið við landbrh. og ef menn vilja sleppa þeim millilið þá hef ég ekki athugasemdir við það ef menn finna málinu aðra og betri boðleið og réttari en hér er lagt til.

Hv. 2. þm. Vesturl. spurðist fyrir um aðra þætti málsins eins og t.d. lausagöngu og girðingarákvæði. Því er til að svara að hér er að vísu hert eða nokkuð áréttað það hlutverk búfjáreftirlitsmannanna að fylgjast með hagagöngu og gera viðvart ef búfjáreftirlitsmaður telur að hlutir séu ekki í lagi. Vafalaust þarf að herða enn frekar eða fara nánar yfir ákvæði um það sem hv. 2. þm. Vesturl. og hv. 8. þm. Reykv. töluðu um, þ.e. þá beitaránauð sem kann að skapast í nábýli annaðhvort hjá nágrannabónda eða í nágrannasveitarfélagi vegna þess að þessum málum sé ekki nægilega vel fyrir komið eða nægilega fylgst með. Ég hygg að það sé mál sem þurfi að skoða betur og nánar en gert er í þessu frv. Við höfum rætt það, m.a. við undirbúning frv. í landbrn., að nauðsynlegt væri að taka lög um búfjárhald til heildarendurskoðunar. En ef landbn. telur mögulegt eða treystir sér til að taka á þessum ákvæðum sem spurt hefur verið um og bent hefur verið á, sérstaklega varðandi lausagönguna og aðra þætti sem hana varðar eins og girðingarmálefni, þá er sjálfsagt að reyna að skoða það ef tími vinnst til. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að þetta frv. fái framgang eins og það er og þá með þeim breytingum sem hv. landbn. telur nauðsynlegar og telur sér fært að gera á frv.

Aðeins að lokum vegna þess að hv. 4. þm. Austurl. talaði um afkomu sauðfjárbænda og nauðsyn þess að taka á þeim málum og af því að hann sagði að nær væri að taka á og fjalla um þau mál en þetta hér, þá held ég að það megi nú ekkert koma í veg fyrir að lög um búfjárhald og önnur lög, sem varða landbúnaðinn, séu skoðuð og lagfærð eftir því sem þörf er á þó hin umræðan sé auðvitað þörf og nauðsynleg og bæði er og hefur verið í gangi og verður sjálfsagt áfram. Mig langar aðeins að nefna það að í þinginu eru ýmis önnur mál sem m.a. varða afkomu bænda þó þau skipti kannski ekki sköpum. Ég hef nýlega mælt fyrir lögum um breytingu á búvörulögunum svokölluðu, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem varða verðmiðlunargjöld. Við erum nýlega búin að fjalla um breytingar á sjóðagjöldum í landbúnaði, hvor tveggja ættu að hafa nokkur áhrif á afkomu. Ég minni síðan á að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið gerður nýr samningur við Bændasamtök Íslands um sauðfjárframleiðsluna þannig að ekki er von á því, alla vega ekki á næstu vikum eða mánuðum, að breytingar verði gerðar á þeim samningi. Við erum hins vegar í dag í viðræðum við Bændasamtökin um breytingar á búvörusamningnum í heild og þar koma auðvitað inn ýmis önnur ákvæði eins og t.d. um Framleiðnisjóð svo ég nefni eitthvað, auk þess að semja á ný um mjólkurframleiðsluna. Við erum líka með í gangi umræður og endurskoðun á lögum um jarðræktarlög og búfjárræktarlög. Þannig að það er ýmislegt í gangi sem væntanlega og vonandi varðar landbúnaðinn í í heild og styrkir hann sem atvinnugrein og afkomu þeirra sem hann stunda. En það eru ekki byltingarkenndar breytingar í þessu heldur er fyrst og fremst verið að reyna að ná fram þeim ákvæðum sem geti þó leitt til betri stöðu atvinnugreinarinnar.