Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:26:24 (5148)

1997-04-15 14:26:24# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Ég árétta það að ég hef að sjálfsögðu engar athugasemdir við að landbn. taki alla 10. gr. laganna til skoðunar eins og hún er lögð upp. Hún er lögð upp á ný með nokkrum breytingum. Ég var aðeins að gera grein fyrir því, hæstv. forseti, sem kom fram í ummælum hv. 4. þm. Austurl. en hann gerði nokkrar athugasemdir við eitt og annað í greininni sem ég fagnaði út af fyrir sig, sagðist bara fagna þeim umræðum sem hér hafa orðið og þeim athugasemdum sem hafa komið, --- að sumt af því sem hann gerði athugasemdir við væru ekki breytingarákvæði. Það sem ég var að skýra var það að ég dró fram annars vegar það sem hann gerði athugasemdir við, þ.e. nýmælin í greininni og hins vegar það sem er óbreytt í greininni. Ég hafði engar athugasemdir aðrar fram að færa við það sem hann vildi að tekið yrði til skoðunar og bæti engu við um það.

Varðandi þessi lög og lögin um afréttarmálefni og fleira, sem koma til umræðu á eftir, þá undirstrika ég að það er talin ástæða til að kveðið sé á um einstaklingsmerkingar á búfé í lögum um búfjárhald. Hin lögin fjalla um ... (Gripið fram í: Hver er skoðun hæstv. landrh.?) Hann er eindregið þeirrar skoðunar að þetta beri að vera svona. Þess vegna leggur hann þessi tvö frv. fram og þarf varla að spyrja um það því annars hefði þetta ekki verið í því formi sem það er. Ég minni svo að lokum á það, sem kom fram í framsöguræðu minni, að frv. þetta hefur verið sýnt í drögum á nýafstöðnu búnaðarþingi og búnaðarþing mælt með samþykkt þess.