Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:42:54 (5152)

1997-04-15 14:42:54# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Út af spurningu hv. þm. þá er fyrst og fremst gert ráð fyrir að Suðurlandsskógaátakið eða verkefnið verði stundað á bújörðum og verði verkefni bænda. Þó er alls ekki loku fyrir það skotið að fleiri aðilar kunni að koma til. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að félagasamtök eða jafnvel áhugasamir einstaklingar geti tekið þátt í einhverjum hluta þessara verkefna, t.d. því sem við köllum landbótaskógrækt eða landbótaskóga, þar sem hugsunin á bak við þá er nokkuð önnur heldur en á bak við timburskógræktina vegna þess að hér er fyrst og fremst verið að tala um að bæta land með ýmsum hætti til útivistar. Þá getur það auðvitað varðað fleiri heldur en aðeins ábúendur jarða. Þess vegna er málinu haldið opnu með þessum hætti. Sjálfsagt er að ákvæði af þessu tagi séu skoðuð nánar í hv. landbn. ef svo ber við að menn telji að annaðhvort sé ekki nægilega skýrt kveðið á um þau eða að hæstv. landbrh. sé heimilaður í þessu sambandi einhver opinn reikningur sem menn vilja kveða nánar á um eða hafa skýrari en frv. gerir grein fyrir.