Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:46:49 (5155)

1997-04-15 14:46:49# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., GBeck
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:46]

Guðmundur Beck:

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar sérstaklega til að benda á. Ég vil byrja á því að segja ég fagna því að sjálfsögðu að menn ætla að fara í skógrækt á Suðurlandi en ég get ekki varist því að benda á hvernig þessi blessaða stjórnsýsla er að verða í landinu og kemur fram í þessu frv., þ.e. hver er það sem á að borga. Núverandi ríkisstjórn ætlar að leggja 40 millj. en síðan á næsta ríkisstjórn að leggja 100 millj. á ári um ófyrirséða framtíð. Þetta er veruleikinn sem blasir við æ oftar í þessari blessaðri stjórnsýslu okkar í dag að menn koma með mikil og góð frumvörp og tillögur en síðan er það næsta ríkisstjórn sem á að borga brúsann.

Nákvæmlega það sama er upp á teningnum í því frv. sem hér verður til umræðu á eftir um landgræðsluáætlun. Jú, 50 millj. eiga að leggjast af núv. ríkisstjórn. Næsta ríkisstjórn á að leggja 200 millj. Þetta er það sem við okkur blasir. Þetta er það sem menn eru að setja fram og lofa upp á kostnað annarra sem og eftirkomendanna.

Annað sem ég get ekki stillt mig um að minnast á þar sem hæstv. landbrh. er um leið umhvrh. er að hér hafa menn verið að reyna að skreyta sig með því að þetta eigi að taka upp koltvíoxíð úr andrúmsloftinu en ég vil minna á að það er mikill fjöldi annarra eitraðra lofttegunda sem menn eiga eftir að sjá við auk þess og hvergi er von til þess að taka á með þessum hætti.