Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:12:04 (5160)

1997-04-15 15:12:04# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:12]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ærið hvimleitt þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár kemur sífellt upp í ræðustól og er með hálfgerðan skæting í garð þingmanna, alltaf á sömu nótunum, að því beri að fagna að þeir sjáist í þingsal. Menn eru yfirleitt ekki að kvarta yfir því þó að hv. þm. sé að gegna öðrum verkefnum á þingtíma og er það ærið oft eins og vera ber og eðlilegt er en það er alltaf sama skítkastið hjá hv. þm. og það ber að harma það þó það sé orðinn hálfgerður kækur hjá þingmanninum að tala á þennan hátt.

Það var kannski óþarfa viðkvæmni hjá ráðherranum fyrrv. að bregðast svona við ábendingu um það þegar hann tók verkefni, áform og hugmyndir sem stóð til að byggja upp í Árnessýslu, í Gnúpverjahreppi, Hrunamannahreppi og Biskupstungum og allir vita sem þekkja að var komið langt á veg þegar ráðherrann sló það af borðinu í valdi síns embættis og flutti austur á land. Síðan kom ládeyða í öll þau verk sem menn hugðust vinna þar og var mjög að frumkvæði bænda í uppsveitum Árnessýslu og skógræktarfélaga og reyndar aðila víðar úr kerfiu en það var pólitísk ákvörðun og það er rétt. Það þýðir ekkert fyrir ráðherrann að bera það af sér að hafa ekki tekið þessa ákvörðun. Það verkefni hefur skilað góðum árangri og er spennandi. En þetta er staðreynd sem ráðherrann er ábyggilega ekki búinn að gleyma en þykir kannski vont að hafa gert á sínum tíma vegna þess að það var kannski ekki skynsamlegasta forgangsröðunin. Um það er ég ekkert að deila. Ég bendi aðeins á ákveðna niðurstöðu og staðreynd í þætti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem fyrrv. landbrh. og það þekkjum við Sunnlendingar.

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. að stilla orðum sínum í hóf.)