Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:17:16 (5162)

1997-04-15 15:17:16# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:17]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því að þetta mál er komið hér fram. Ég tel að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða og ég tel það af fenginni reynslu og af því að hafa haft árangur slíkra verkefna fyrir augunum nú um margra ára skeið. Ég sé ekki að það þjóni miklum tilgangi að leggjast í einhverjar söguskýringar á því að verkefni hafi verið fært austur á Hérað frá Suðurlandi. Ég kannst ekki við að svo hafi verið gert. Það var áhugi á Austurlandi og jarðvegur fyrir þessum málum. Þar var á sínum tíma komið í gagnið svokallaðri Fljótsdalsáætlun sem var í smáum stíl en gaf eigi að síður það góða raun að áhugi vaknaði eystra fyrir því að halda áfram í þessa veru. Við þingmenn Austurlands fluttum m.a. þingsályktunartillögur í þessu sambandi þar sem hvatt var til þess að halda áfram á sömu braut. Sú tillaga var samþykkt á Alþingi og síðan kom að því, á þeim tíma þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. var landbrh., að þetta var fest í löggjöf. Þetta er samfella sem er staðreynd og þarf ekkert að deila um.

Það sem er athyglisverðast núna er að það verkefni sem fór af stað hefur gefið það góða raun og árangurinn verið það góður að áhugi hefur vaknað miklu víðar. Hann hefur vaknað miklu víðar en á Suðurlandi. Ég tel það rétt skref að setja upp núna afmarkaða áætlun og fylgja eftir þeim áhuga sem hefur verið á Suðurlandi fyrir þessum málum auk þess sem þar eru skilyrði til þess að ná árangri. En það er miklu víðar áhugi. M.a. hefur vaknað og verið fyrir hendi víðar áhugi á Austurlandi fyrir þessum málum og þar á meðal á Austfjörðum og einnig á Vestfjörðum. Þaðan hafa komið fram tilmæli um að undirbúa slíkar áætlanir. Ég tel skynsamlegt að taka þessar skógræktaráætlanir í þrepum og fylgja eftir þeim undirbúningi og þeim áhuga sem er á skógræktarverkefnum. Það er ekki sama hvernig að þessum málum er staðið. Þessar áætlanir þurfa að vinnast í mjög góðu samráði og með samþykki bændanna á hverjum stað og þessi verkefni eru í raun sprottin af áhuga þeirra í og með. Það hefur reynst afskaplega farsælt, t.d. fyrir austan en þar var það þannig, að bændur hafa tekið hluta af sínu landi til skógræktar og starfsmenn Héraðsskóganna hafa síðan unnið undirbúnings- og tæknivinnu sem er afar áríðandi að sé vel af hendi leyst því það er ekki sama hvernig skógur er settur í landið. Hann verður að falla að landinu. Sú vinna verður að vera á hendi fagmanna sem vinna þau kort sem nauðsynleg eru til undirbúnings þessum verkefnum og síðan framkvæma bændurnir þetta með sínum tækjum og verkfærum og áhuga sínum á ræktun sem eins og fram hefur komið hér er grundvallaratriðið. Bændur eru ræktunarmenn. Sá tími er löngu liðinn þegar eilíflega var verið að þrasa um að skógrækt og sauðfjárrækt gætu ekki farið saman. Það hefur sýnt sig að þessar atvinnugreinar geta það vel.

Ég vildi aðeins leggja orð í belg í þessari umræðu vegna þess að ég tel að um sé mjög merkilegt mál að ræða. Ég hef áhuga á því að það gangi fram og tel rétt að taka nú til hendinni og ég tel að engum tilgangi þjóni að leggjast nú í einhverjar söguskýringar á því hvort hugsanlegt hefði verið að Héraðsskógaverkefnið færi fyrst á Suðurland. Héraðsskógaverkefnið er einfaldlega staðreynd. Það hefur gefið góða raun og hefur vakið áhuga um land allt á sambærilegum verkefnum. Það er sú staða sem uppi er núna og það er sá áhugi sem við eigum að fylgja eftir.