Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:23:34 (5163)

1997-04-15 15:23:34# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:23]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst full ástæða til að þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni og reyndar hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir það hve vel þeir taka í þetta verkefni. Mér finnst skipta afar miklu máli þegar um er að ræða jafnjákvæð verkefni og hér eru að við sýnum samstöðu og í raun og veru kemur þessi samstaða fram í umræðunni sem hér hefur farið fram.

Mér finnst líka ástæða til að þakka hæstv. núv. landbrh. fyrir þann mikla áhuga sem hann hefur sýnt á þessu verki. Ég hvet til þess að við höldum vel utan um þetta mál, komum því til framkvæmda og það á þessu þingi. Ég er reyndar einn af fjölmörgum flutningsmönnum þáltill. um skógræktarátak á Íslandi. Ég hygg að þar sé um að ræða þingmenn úr öllum kjördæmum þessa lands. Það er næsta skref á þessari vegferð okkar í skógrækt á Íslandi. Í þeirri þáltill. er talað um að tekið skuli mið af Héraðsskógaáætluninni sem samþykkt hefur verið og núna Suðurlandsáætluninni sem við höfum verið að ræða. En ég endurtek það hve mikilvægt er að við sýnum þessu mikilvæga máli mikla og góða samtöðu og fyrir hana vil ég þakka.